Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 17:18:43 (721)

[17:18]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er algerlega ósammála hæstv. fjmrh. af því að málið snýst einmitt um það og ég ætla ekki að fara að rekja þetta hér eins og ég gerði fyrir nokkrum dögum. En það féll hæstaréttardómur fyrir tæplega ári síðan og kröfurnar sem lögmenn þessa starfsfólks sjúkrahússins í Vestmannaeyjum hafa verið að gera eru tvenns konar. Dómurinn felur í sér tvenns konar kröfur, þ.e. annars vegar á það tímabil þegar sjúkrahúsið var rekið af bæjarsjóði Vestmannaeyja eða á ábyrgð bæjarsjóðs Vestmannaeyja og hins vegar eftir að ríkið tók við og kröfurnar eru tvenns konar. Nú er ég kannski að gera miklar kröfur til hæstv. fjmrh., að hann viti um þetta mál, en ég var að vekja athygli á þessu einmitt vegna þess hvernig verið er að fara með almannafé. Þetta voru kröfur á ríkið. Það féll hæstaréttardómur og síðan hefur þetta mál verið að hjakka í einhverjum farvegi og það fólk sem fór í málaferli og leitaði réttar síns fékk ekki greitt. Nú er vonandi að rætast úr málinu og mig langaði einfaldlega að frétta af því hvort það væri búið að borga út þessa peninga. Mig langaði að fá það upplýst hér, en ég þarf greinilega að leita annað en til hæstv. fjmrh. til að fá svör við því.