Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 17:36:55 (723)

[17:36]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Frv. sem við erum hér að fjalla um er ásamt fjárlagafrv. annað meginfrv. ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum fyrir árið 1995. Það er þess vegna, virðulegi forseti, enn á ný nauðsynlegt að vekja athygli á að hvorki hæstv. forsrh., viðskrh. né félmrh. eru mættir til umræðunnar. Ef hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. eru í húsinu er nauðsynlegt að fá þá til umræðunnar. Ég vil hins vegar sérstaklega mótmæla því að hæstv. viðskrh. sé að skipuleggja fund úti á landi á þeim degi sem hann hlaut að vita að frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1995 kæmi til umræðu. Það er fullkomlega óþolandi, virðulegi forseti, að sá ráðherra sem ber ábyrgð á Seðlabanka Íslands, bankamálum og viðskiptamálum, skipuleggi störf sín með þeim hætti að leika sér úti á landi þegar hann á að vera hér til að ræða þetta annað mesta efnahagsfrumvarp ríkisstjórnarinnar. Og í raun og veru, virðulegi forseti, væru fullar ástæður til þess fyrir stjórnarandstöðuna að neita núna framhaldi umræðunnar og bíða þar til hæstv. viðskrh. kemur til umræðunnar. Hann er aðaltalsmaður Alþfl. í þessum málaflokki. Hann ber stjórnarfarslega ábyrgð á Seðlabanka Íslands og viðskiptabönkunum. Mér er satt að segja skapi næst, virðulegi forseti, að gera þá kröfu hér og nú, enn einu sinni, að umræðum á Alþingi sé hagað þannig að hægt sé að ræða við þá aðila sem bera ábyrgð samkvæmt lögunum um Stjórnarráð Íslands á þeim málum sem er verið að ræða um.
    Hvernig stendur á því að forsetar þingsins og forustumenn þingflokka stjórnarliðsins sjá ekki til þess að hæstv. viðskrh. sé staddur hér? Hann er ekki erlendis. Hann hefur auglýst fund, áróðursfund á Höfn í Hornafirði í kvöld og gerir það meira að segja án þess að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson sé í kjördæminu. ( JGS: Og hann hrökk við núna mjög illilega.) Ég heyrði ekki betur fyrr í dag en það væri verið að auglýsa í kvöld fund hæstv. iðn.- og viðskrh. á Höfn í Hornafirði. Það má vera að mér hafi misheyrst. ( Gripið fram í: Á Egilsstöðum annaðkvöld.) Og á Egilsstöðum annaðkvöld.
    Ég vil spyrja hæstv. forseta áður en maður heldur áfram: Er það virkilega þannig að okkur sé ætlað að ræða málefni viðskiptabankanna, Seðlabankans, lánsfjárlögin og þessa þætti sem hér eru til umræðu og vaxtastefnuna, án þess að sá ráðherra Alþfl. sem ber stjórnarfarslega ábyrgð á málum sé viðstaddur, þegar hann hefur enga aðra afsökun heldur en að halda áróðursfund á Höfn í Hornafirði?
    Ég vil spyrja forseta: Er það virkilega ætlun forsetaembættisins að það eigi að halda áfram með þessa umræðu?
    ( Forseti (GunnS) : Hv. 8. þm. Reykn. hefur beint spurningum til forseta. Forseti vill upplýsa hv.

þm. um að þessi umræða fer fram samkvæmt dagskrá sem liggur fyrir og að þeirri dagskrá hefur verið eðlilega staðið. Hér er til staðar hæstv. fjmrh., sem ber ábyrgð á þeim málaflokki sem hér er til umræðu og hefur mælt fyrir málunum, og hér hefur einnig verið til staðar og ég sé að er í húsinu hæstv. forsrh. Einnig sé ég að hér er til staðar hæstv. félmrh. Ég verð að taka fram að forseti getur ekki haft stjórn á ferðum hæstv. ráðherra.)
    Virðulegi forseti. Það er greinilegt að forsetaembættið ætlar að láta þessa umræðu fara hér fram. Þá minni ég enn á ný og í annað sinn á það hér í dag, að þegar haldinn var fundur fulltrúa þingflokka og forseta um umræðuna um fjárlagafrv. var það niðurstaðan að forsetar tóku að sér að tryggja það að þeir ráðherrar sem málin snerta, sérstaklega þessi tvö höfuðmál, þau eru nú ekki mörg, þau eru tvö hæstv. forseti á hverju þingi, sem snerta efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, væru viðstaddir umræðuna, þannig að það gerðist ekki líka í umræðunum um lánsfjárlagafrv. fyrir 1995, eins og um fjárlagafrv. fyrir 1995, að þeir ráðherrar sem þurfti að tala við voru öðru að sinna. Þau eru aðeins tvö frumvörpin sem ríkisstjórnin leggur fyrir þingið árlega um meginlínur í efnahagsmálum fyrir næsta ár. Það eru kannski tveir til þrír dagar á öllu þinginu sem fara í umræður um það. Satt að segja veit maður ekki hvað við hér eigum að gera til þess að knýja á um það að Alþingi Íslendinga geti gegnt skyldu sinni, að ræða við þá ráðherra sem bera ábyrgð á málunum. Þó að hæstv. fjmrh. beri fram frv. þá vita allir að það er ekkert eitt frv. sem snertir eins mikið þátt Seðlabankans og vaxtastefnunnar í efnahagsmálum og ríkisstjórnin leggur fyrir hvert þing reglulega, eins og þetta frv.
    Og að Alþfl. skuli ekki sjá til þess að viðskrh. sé mættur hér er auðvitað fullkomlega óafsakanlegt, því það fer auðvitað enginn heilvita maður að ræða við hæstv. félmrh., Guðmund Árna Stefánsson, um meginþætti þessa máls. Það ber að víta Alþfl. og forustu hans hér í þinginu fyrir að haga sér með þessum hætti. Það væri satt að segja e.t.v. skynsamlegast fyrir okkur hér að lýsa yfir algjörri vanvirðu á umræðuna í heild sinni og taka ekki þátt í henni, láta ekki bjóða okkur þetta til lengdar, því það var búið að vara hæstv. ríkisstjórn við og það var orðið drengskaparsamkomulag um að þetta yrði ekki svona áfram. Við höfum engan áhuga á því að standa hér í einhverjum málfundaræfingum, en við viljum fá að ræða efnislega við þá ráðherra sem bera ábyrgð samkvæmt lögunum um Stjórnarráð Íslands á ákveðnum þáttum. En með áróðursfundum úti um land, á sama degi og þeir eiga að standa hér, eru þeir gagngert að koma í veg fyrir að slík skylda Alþingis geti verið uppfyllt.
    Virðulegi forseti. Kannski er það þannig að maður verði enn á ný að leggja upp í það að ræða þessi mál við þessar aðstæður. En ég vil þá benda hæstv. forseta á það að við höfum tvöfaldan ræðutíma og það er rétt að hann stilli klukkuna í samræmi við það.
    Hæstv. forsrh. lýsti því yfir í vor að vextir mundu fara lækkandi. Í hönd færi tími þar sem efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar mundi tryggja vaxtalækkun. Þegar hæstv. forsrh. var varaður við fyrr á þessu ári, að slíkt mundi ekki gerast, þá taldi hann þær viðvaranir vera að tilefnislausu. Nú er það engu að síður staðreynd, hæstv. forsrh., að vextir almennra víxillána banka og sparisjóða eru um þessar mundir hærri en þeir voru þegar hæstv. ráðherra gaf þessar yfirlýsingar. Og vextir á ýmsum pappírum sem bera ríkisábyrgð, eins og húsbréfum, hafa farið hækkandi. Hæstv. forsrh. gaf engu að síður í gær í umræðu um vantraust á ríkisstjórnina yfirlýsingu sem var svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Enginn vafi er á því að vaxtagrundvöllurinn er traustur. Allar efnahagsforsendur leiða til þess að ekki þarf að spá um að breytingar verði á vöxtum til hækkunar almennt séð á næstu missirum.``
    Þegar núv. ríkisstjórn tók við þá var það hennar fyrsta verk að hækka vextina. Það var hennar fyrsta verk. Það verk hefur oft komið til umræðu hér á Alþingi. Rök hæstv. ríkisstjórnar, hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. voru þau að slíkur munur hefði verið á vöxtunum á markaði og vöxtum á ríkispappírum að það hefði orðið að hækka vextina á ríkispappírunum til að laga þá að vöxtunum á markaðnum. Í ljósi þessara ummæla, röksemdafærslunnar sem hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. fluttu hér hvað eftir annað og hafa gert á undanförnum árum fyrir nauðsyn vaxtahækkunar í maí 1991, er afar fróðlegt að skoða októberhefti Hagtala mánaðarins 1994, sem gefið er út af Seðlabanka Íslands. Í þessu tímariti Seðlabankans, grundvallartímariti hér í efnahagsmálum, eru birt tvö línurit. Þau eru satt að segja afar fróðleg, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. Það er línuritið fyrir langtímavexti 1991--1994 og línurit yfir skammtímavexti 1991--1994. Og til þess að tryggja það nú að hæstv. ráðherrar geti skilið hvað er að gerast í íslenska peningakerfinu og samhengi þess við það sem þeir sögðu sjálfir 1991 hef ég látið stækka línuritin upp og ég er hér með aukaeintök handa ráðherrunum sem er sjálfsagt að afhenda þeim þannig að þeir geti fylgst með þessu um leið og farið er yfir þennan fróðleik Seðlabankans.
    Hér fyrst á þessu línuriti eru upphafsmánuðir ársins 1991. Stjörnumerkta línan eru verðtryggðu bankalánin, það eru verðtryggðu bankalánin á markaðnum. Þykka línan eru húsbréfin á verðbréfaþinginu og granna dökka línan eru spariskírteinin á verðbréfaþinginu. Það kemur í ljós að þangað til ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við í maíbyrjun 1991, var nokkur samsvörun á milli allra þessara vaxtalína. Síðan hækkar ríkisstjórnin í maímánuði vextina og hvað gerist í kjölfarið? Í kjölfarið hækka bankarnir verðtryggðu lánin þannig að það verður stórt stökk upp frá þeirri samfylgd sem var þar á milli. Og allan valdatíma ríkisstjórnarinnar hafa vextir verðtryggðra bankalána haldist í þessum hæðum, sem eru langt yfir þessum mörkum og það sem meira er: Ef tekinn er septembermánuður sl., hæstv. forsrh., þá er orðið hér risavaxið bil milli vaxtanna á markaðnum sem bankakerfið býður og þeirra vaxta sem eru á ríkispappírunum, satt að

segja svo mikið bil að það hefur aldrei á öllum þessum árum verið stærra. Þannig að út frá röksemdafærslu hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. 1991 ætti þá ríkisstjórnin, ef þeirra rök þá voru rétt, að stórhækka vextina nú þegar, vegna þess að þetta mikla bil er orðið á markaðnum sjálfum. Annaðhvort hlýtur þess vegna að vera rangt, röksemdafærsla ráðherranna fyrir vaxtahækkuninni í maí 1991 eða vaxtastigið á ríkispappírunum nú. Og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvor röksemdafærslan er röng?
    En við skulum skoða skammtímavextina sem hæstv. forsrh. gerði að umtalsefni hér fyrr í dag. Ég er líka hérna með alveg sérstök eintök handa ráðherrunum varðandi skammtímavextina svo að þeir þurfi ekki að vera að rýna á þetta hjá mér sitjandi fyrir aftan ræðustólinn, hæstv. fjmrh. ( Fjmrh.: Nei, ég er með þetta.) Þar er líka mjög fróðlegt að skoða hvað gerist þegar ríkisstjórnin tekur við. Granna dökka línan eru ríkisvíxlarnir, gráa línan er endurhverf ríkisvíxlakaup Seðlabankans og stjörnulínan eru almenn víxillán banka og sparisjóða. Og hvað gerist þegar ríkisstjórnin hækkar vextina á ríkisvíxlunum? Jú, hún hækkar þá svo skarpt að það verður nánast alveg samfella á milli vaxtanna á ríkisvíxlunum, almennum víxillánum banka og sparisjóðanna og endurkaup ríkisvíxlakaup Seðlabankans, þó að almennt sé nú talið eðlilegt að það sé eitthvert bil þar á milli. Þannig að það er auðvitað ljóst á þessu línuriti að vaxtahækkun ríkisstjórnarinnar á ríkisvíxlunum var óþarflega há, þó að ég hafi ávallt viðurkennt að það var viss þörf á því vorið 1991 að hækka vextina á ríkisvíxlunum, því hef ég aldrei neitað. En það var hins vegar vaxtahækkun á spariskírteinunum sem ég taldi ranga og það er auðvitað nauðsynlegt að greina þar á milli.
    En hver er staðan nú í september, hæstv. ráðherrar? Þá er komið í ljós að það er orðið meira bil á milli almennra víxillána banka og sparisjóða og ríkisvíxlanna núna heldur en var við stjórnarskiptin 1991. Þannig að bæði þegar litið er á skammtímavextina og langtímavextina, þá er orðið meira bil á milli markaðarins og vaxtastigsins sem ríkið er að leita eftir eða bjóða eða ákveða, nú heldur en þá. Og það eru auðvitað mjög merkileg tíðindi að munurinn á markaðsvöxtunum og ríkispappíravöxtunum sé orðinn meiri nú heldur en hann var í apríl 1991. En það var höfuðröksemd ríkisstjórnarinnar fyrir vaxtahækkuninni þá að það yrði að laga vextina hjá ríkinu að markaðsvöxtunum.
    Ég vil þess vegna spyrja, hæstv. ráðherra, hvað segja þeir um þetta bil? Þeir geta að vísu haldið því fram, eins og þeir hafa gert stundum áður, að vextir bankakerfisins þurfi að komast niður. En þessi tvö línurit sýna hins vegar mjög rækilega að árangurinn af þeirri viðleitni er í öfuga átt, bilið á langtímavöxtunum hefur farið að vaxa frá því sem það var í fyrra og hefur aldrei verið meira á tímabilinu en það er nú og sama gildir um skammtímavextina. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh.: Hvað er það í peninga- og lánsfjárstefnu ríkisins fyrir árið 1991 sem mun leiða til þess að sú mynd breytist sem ég hef hér verið að lýsa og sem Seðlabankinn birtir í sinni útgáfu? Hvaða efnahagslegu rök eru fyrir því að þessar línur verði ekki með þessum hætti? Það er ljóst að taki ráðherrarnir enn þá mark á þeim rökum, sem þeir beittu sjálfir í maímánuði 1991 og hafa endurtekið síðan, allt fram til síðustu vikna, fyrir vaxtahækkuninni þá, sem er að þeirra dómi gild, þá er alveg ljóst að fyrir höndum er vaxtahækkun hjá hæstv. ríkisstjórn. Nema hæstv. ríkisstjórn ætli sér að fara að halda vöxtunum niðri með handafli. Það hefði nú verið talinn einhver mesti glæpur að dómi hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. í peningamálum, þ.e. að halda vöxtunum niðri með handafli. Hér höfum við skýra lýsingu á markaðsþróun vaxtanna og þróun vaxtanna á bæði langtíma- og skammtímapappírum ríkisins.
    Hæstv. forsrh. viðurkenndi það síðan hér fyrr í dag að hann hefur haft efasemdir um útgáfu ECU-bréfanna, en hæstv. fjmrh. kom hins vegar hér áðan og færði tvíþætt rök fyrir útgáfu ECU-bréfanna. Annars vegar voru þessi sérkennilegu fjölbreytnirök sem hann flutti hér í síðustu viku og segja út af fyrir sig ekki neitt því að það er ekki markmið í sjálfu sér að auka fjölbreytni á ríkispappírum. Það sem er markmiðið er að halda vöxtunum niðri, fá þá til að lækka og tryggja fjáröflun ríkisins. Það þarf ekki, hæstv. fjmrh., að grípa til fjölbreyttari tækja á þeim markaði ef hin eldri tæki duga og eru í samræmi við markaðinn. Það er eingöngu vegna þess að markaðurinn er ekki lengur reiðubúinn að taka við þeim pappírum sem ríkissjóður hefur verið að bjóða sem þörf er á að auka fjölbreytni af hálfu ríkisins. Það er því ljóst að þessi fjölbreytniröksemdafærsla felur í sér viðurkenningu á því að markaðurinn tók ekki lengur hina hefðbundnu pappíra ríkissjóðs gilda á 5%-grundvellinum.
    Hin röksemdin sem hæstv. fjmrh. kom hér með var að þeir sem vildu sækja sér erlenda gjaldmiðilstryggingu ættu að eiga kost á því að kaupa verðbréf af hálfu íslenska ríkisins þar sem vaxtastigið væri háð sömu þáttum eins og um erlend lán væri að ræða. Hæstv. forsrh., 23 milljarðar, ein töfratalan úr stefnuræðunni, minnkun erlendra skulda. Svo kemur fjmrh. hér í dag og segir: Það varð að gefa kaupendum á markaði kost á því að kaupa verðbréf frá ríkissjóði sem eru ígildi erlendra lána. Með öðrum orðum viðurkennir fjmrh. það hér í dag að ECU-bréfin eru eins konar bakdyralántaka erlendis fyrir ríkissjóð vegna þess að bréfin lúta sömu lögmálum og erlend lán og það varð að bjóða markaðnum upp á það. Maður hefur nú vitað til þess að hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. töluðu ekki mikið saman, en mér liggur nú við að spyrja: Er það eins með hæstv. fjmrh. og hæstv forsrh., að þeir séu líka hættir að tala saman? Hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir í lykilþáttum eins og þessum innan ríkisstjórnarinnar? Það vekur auðvitað líka upp þá spurningu: Hvar á þá að flokka ECU-bréfin í tölfræðilegum upplýsingum Þjóðhagsstofnunar? Þau lúta sömu lögmálum og erlend lán. Ef erlendu gjaldmiðlarnir breytast sem eru í ECU-safninu þá breytast bréfin. Ef gengi íslensku krónunnar fellur þá breytast bréfin. Þannig að þessi sérkennilega fjáröflun ríkissjóðs lýtur sömu lögmálum og erlend lántaka.

    Það sem er þess vegna verið að viðurkenna í dag af hæstv. fjmrh. var að fjmrn. taldi nauðsynlegt til að styrkja fjáröflun ríkisins að bjóða kaupendum ígildi erlendrar lántöku.
    Ég vil nú segja við hæstv. forsrh. að mig undrar æ meir að hæstv. forsrh. skyldi samþykkja útgáfu þessara bréfa því það er alveg ljóst að ekkert eitt atriði hefur eins skotið fótum undan allri röksemdafærslu hæstv. forsrh. um árangur ríkisstjórnarinnar og um þau markmið sem hann hefur sett á oddinn eins og þessi bréfaútgáfa fjmrn.
    Í þriðja lagi, virðulegi forseti, vil ég víkja hér enn á ný að húsbréfunum. Hæstv. félmrh., þrátt fyrir að vera tvívegis spurður að því hér í dag hvort félmrn. og þar með ríkisstjórnin reiknaði með því að Seðlabankinn keypti meira af húsbréfum, neitaði að svara þeirri spurningu. Þess vegna hlýtur maður að spyrja hina ráðherrana tvo sem hér eru mættir, hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh.: Er reiknað með því að Seðlabankinn haldi áfram kaupum sínum á húsbréfum eða ekki? Ef Seðlabankinn er hættur kaupum á húsbréfum þá er alveg ljóst að vaxtaspírallinn á húsbréfunum getur haldið áfram upp á við og það veit í sjálfu sér enginn hvar hann kemur til með að stöðvast.
    Ég vil í fjórða lagi spyrja hæstv. fjmrh. að því þegar hann segir í greinargerð frv. að viðtökur markaðarins á ríkispappírunum hafi verið góðar. Seðlabankinn er varla hluti af þessum markaði. Það hefur verið upplýst að Seðlabankinn á núna 2 / 3 af öllum ríkisvíxlunum. Bankakerfið og aðrir aðilar eiga ekki nema 1 / 3 af ríkisvíxlunum. Það væri reyndar fróðlegt að fá að vita hvað ríkisbankarnir tveir, Búnaðarbankinn og Landsbankinn, eiga af ríkisvíxlunum svo að maður fái heildartölu yfir eign peningastofnana ríkisins á ríkisvíxlunum þannig að til viðbótar við þessa 2 / 3 sem Seðlabankinn er með þá komi líka upplýsingar um ríkisvíxlaeign Landsbankans og Búnaðarbankans. En jafnvel þótt þeir ættu ekki neitt, sem er auðvitað ekki raunin því þeir eiga töluvert af ríkisvíxlum, þá getur fjmrh. ekki verið ánægður með viðtökur markaðarins þegar það er Seðlabankinn sem hefur keypt 2 / 3 af ríkisvíxlunum. Það er auðvitað sönnun um veikleika markaðarins, um vantraustið á vaxtastigi þessara pappíra að Seðlabankinn skuli þurfa að koma svona mikið inn í. Ég fer kannski að skilja að hæstv. forsrh. sé óánægður með yfirlýsingar seðlabankastjóra vegna þess að það var einn af seðlabankastjórunum sem upplýsti það í síðustu viku að Seðlabankinn ætti 2 / 3 af ríkisvíxlunum. Síðan blasir við sú staðreynd að Seðlabankinn hefur keypt ríkisbréf fyrir 9 milljarða á þessu ári eingöngu og húsbréf fyrir 4 milljarða þannig að það er fyrir 13 milljarða á þessum rúmum 9 mánuðum sem liðnir eru af árinu sem Seðlabankinn hefur orðið að kaupa ríkisbréf. Það er bara ekki hægt, hæstv. fjmrh., að segja svo í grg. þessa frv. að viðtökur markaðarins séu góðar. Það er þvert á móti alvarlegur markaðsbrestur í sölu ríkispappíra sem við blasir og það er sá markaðsbrestur sem stefnir þessu vaxtamarkmiði ríkisstjórnarinnar í hættu og það sem meira er kann að renna stoðum undir það að vextir kunni frekar að hækka.
    Síðan segir líka í greinargerð frv., með leyfi hæstv. forseta, sem rökstuðningur fyrir lægri lánsfjárþörf:
    ,,Lægri lánsfjárþörf ætti að hafa áhrif á vexti til lækkunar ef markaðurinn starfar óheftur og lántökur annarra aðila, þ.e. sveitarfélaga, heimila og atvinnufyrirtækja, aukast ekki.``
    Ég vil spyrja hæstv. forsrh. sem ráðherra efnahagsmála: Er það eitt af efnahagslegum markmiðum ríkisstjórnarinnar að lántökur atvinnufyrirtækja aukist ekki? Er það hluti af efnahagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar að fyrirtækin eigi eingöngu að fjárfesta fyrir eigið fé? Við vitum að eiginfjárstaða flestra íslenskra fyrirtækja er mjög veik. Það er hins vegar alveg ljóst að ef það á að komast einhver kraftur í efnahagslífið á Íslandi þá verða atvinnufyrirtækin að koma meira fram sem fjárfestar. Hæstv. forsrh. hefur verið að vinna að því að auka fjárfestingu í vegamálum, samgöngumálum og fjármagna það með ákveðnum hætti. En hér er verið að lýsa því yfir sem einni af forsendum þessa frv. sem hér er til umræðu að atvinnufyrirtækin eigi ekki að taka lán vegna fjárfestinga. Þar með er verið að segja það vegna veikrar eiginfjárstöðu íslenskra fyrirtækja að ríkisstjórnin reiknar ekki með því að fyrirtækin fari í gang á næsta ári. Ríkisstjórnin reiknar ekki með því að fyrirtækin fari í gang á næsta ári. Hvar er þá batinn? Hvar eru þá þessi blóm í haganum sem talað hefur verið um? Hvar er þá þetta sólskin sem fram undan er í íslensku efnahagslífi? Er það þá ríkið sem á að leggja til batann? Eru það þá bara fjárfestingar í vegamálum fjármagnaðar af ríkinu sem eiga að leggja til batann? Er það virkilega þannig að þessi markaðssinnaða ríkisstjórn ætlar að leggja grundvöllinn að hagvexti á Íslandi með auknum ríkisumsvifum á sama tíma og umsvif fyrirtækjanna eiga að dragast saman? Það er það sem verið er að segja í þessari greinargerð, hæstv. forsrh. Og enn á ný fer ég að efast um samskiptahættina milli forsrn. og fjmrn. því með þessu orðalagi og röksemdafærslu og markmiðssetningu í frv. til lánsfjárlaga er fjmrn. að lýsa því yfir að á árinu 1995 muni atvinnulífið á Íslandi ekki bera uppi aukinn hagvöxt. Það eru auðvitað vond tíðindi. Það eru vond tíðindi.
    Virðulegi forseti. Í greinargerðinni er því einnig lýst yfir að ríkissjóður hafi tekið erlend lán til þess að jafna áhrifin á lánamarkaðnum. Það er merkileg yfirlýsing. Hún merkir það að ríkisstjórninni var ekki kleift að viðhalda vaxtamarkmiðinu um 5% í skamman tíma nema með auknum erlendum lántökum. Fjmrn. er að segja hér í greinargerð frv. að auknar erlendar lántökur voru forsenda vaxtastigsins frá því að breytingin varð á sínum tíma til lækkunar. Og svo er forsrh. að gera það að meginuppistöðu í stefnuræðu sinni að þjóðin geti glaðst yfir minnkandi erlendum lántökum þegar fjmrn. er að segja að ein af meginforsendum lágra vaxta séu auknar erlendar lántökur.
    Nei, satt að segja er það þannig að þetta frv. sem hér er til umræðu og þær yfirlýsingar sem hér

eru í greinargerðinni af hálfu fjmrn. eru slík stórskotahríð á þær yfirlýsingar í efnahagsmálum sem hæstv. forsrh. hefur verið að gera að uppistöðu í málflutningi sínum á undanförnum vikum að það mætti halda að hæstv. fjmrh. væri búinn að hefja --- svo ég slái nú á létta strengi --- prófkjörsbaráttuna í Sjálfstfl. upp í æðra veldi og hafi notað þetta frv. til lánsfjárlaga til þess að ómerkja hæstv. forsrh. í nánast öllu því sem hann hefur haldið fram í efnahagsmálum það sem af er þessu þingi.
    Í fimmta lagi, virðulegi forseti, vil ég vekja athygli hæstv. forsrh. á töflu á bls. 9 í greinargerðinni vegna þess að í þeirri töflu kemur fram að lánsfjáreftirspurn ríkisins hefur aukist á fyrstu sex mánuðum ársins 1993 um 16% og á fyrstu sex mánuðum ársins 1994 um 4%. En lánsfjáreftirspurn atvinnulífsins hefur á tímabilinu 1993 aðeins aukist um 7,7%. Það er helmingi minni breyting en hjá ríkinu. Ríkið hefur aukið lánsfjáreftirspurn sína tvöfalt á við atvinnulífið í fyrra. Það er mínus í lánsfjáreftirspurn atvinnulífsins það sem af er þessu ári, á fyrstu sex mánuðunum, um 0,4% í mínus á sama tíma og ríkið hefur aukið lánsfjáreftirspurn sína um plús 4%. Þannig að enn á ný er þessi ríkisstjórn að skipulegga lánsfjármarkaðinn með þeim hætti að það er ríkið sem sækir á. Það er ríkið sem er að auka umsvif sín. Það er ríkið sem er að sækja inn í peningastofnanirnar og markaðinn en atvinnulífið að draga sig til hlés. Var það markmiðið með efnahagsstefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að á lokamissirum valdaferils þeirrar stjórnar á kjörtímabilinu keyrði hið opinbera langt fram úr atvinnulífinu í umsvifum bæði hvað snertir fjárfestingu og umsvif á lánsfjármarkaði? Enda er því lýst yfir í greinargerð þessa frv., virðulegi forsrh., að fjárfestingar á vegum fyrirtækja séu á Íslandi 7,5% af landsframleiðslu samanborið við 10% í nágrannalöndunum. Eða með öðrum orðum líka á þessum vettvangi í fjárfestingunni sjálfri er atvinnulífið á Íslandi að dragast saman, samanborið við ríkið en í nágrannalöndunum er atvinnulífið að sækja á.
    Það hefði nú eitthvað verið sagt af talsmönnum og hugmyndafræðingum Sjálfstfl. ef slíkri efnahagsstefnu hefði verið lýst hér fyrir nokkrum árum síðan. En þetta er greiningin sem birtist í greinargerð þessa síðasta frv. til lánsfjárlaga sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar leggur fram. Þetta er síðasta lánsfjárlagafrv. sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar leggur fram. Á fáeinum blaðsíðum í þessu frv. eru allar helstu röksemdir forsrh. fyrir árangri ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum skotnar í kaf.
    Virðulegi forseti. Því miður er það þannig að það er ekkert í þessu frv. til lánsfjárlaga sem bendir til þess að einhver jákvæð umskipti séu að verða í íslensku efnahagslífi. Þvert á móti er þetta frv. þannig að atvinnulífið mun í byrjun næsta kjörtímabils búa við enn erfiðari stöðu gagnvart ríkinu heldur en ætlast var til í upphafi þessa ferils. Og það er líka alveg ljóst eins og ég rakti með þeim línuritum sem ég hef hér endurbirt úr Hagtölum mánaðarins frá Seðlabankanum að þeir sem fara með ákvörðunarvald um markaðspappíra ríkisins standa nú frammi fyrir meira bili á milli þeirra vaxta og markaðsvaxtanna en menn sáu þegar ríkisstjórnin tók við og engir hafa haft jafnstór orð um það bil sem núv. hæstv. fjmrh. og núv. hæstv. forsrh.
    Inn í þessa umræðu, hæstv. forsrh., bætist svo yfirlýsing félmrh. fyrr í dag að hæstv. félmrh. sé búinn að gefast upp á því að afla lánsfjár til húsnæðiskerfisins eftir leiðum markaðarins. Hæstv. félmrh. sagði fyrr í dag að hann væri nú svo gamaldags, svo að notað sé hans eigin orð, hann væri svo gamaldags að hann ætlaði að leita eftir félagslegu samkomulagi um það, það voru líka hans óbreyttu orð, félagslegu samkomulagi til þess að knýja á um, og ég vitna nú í þriðja sinn í hans óbreyttu orð, um siðferðilega skyldu lífeyrissjóðanna til þess að kaupa verðbréf til húsnæðisframkvæmda af ríkinu. Lífeyrissjóðirnir og Húsnæðisstofnunin eru einhverjir umfangsmestu gerendur á þessum markaði. Og ofan á allt annað gerist það svo hér í dag að félmrh. kemur og lýsir því skýrt yfir að á næstunni muni hann leita annarra leiða en markaðsleiða til þess að fjármagna húsnæðiskerfið á Íslandi.