Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 18:20:17 (725)

[18:20]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hefur engu verið ruglað saman, hæstv. forsrh. Það hefur ekkert staðið á því að ég og aðrir viðurkenndu það að sem betur fer hefur aukin veiði í Smugunni, aukning erlendra ferðamanna og ýmislegt annað leitt til þess að viðskiptajöfnuðurinn hefur verið jákvæður og þar með minnka erlendar skuldir þjóðarbúsins. En við höfum hins vegar saknað þess, hæstv. forsrh., að á sama tíma og hæstv. forsrh. hefur lýst þessum tíðindum hefur hann algerlega gleymt að geta þess að það fyrirtæki sem hann er aðalforstjóri fyrir, hið opinbera, íslenska ríkið hefur verið að auka erlendar skuldir sínar. Það væri auðvitað farsæl hagstjórn ef ríkið væri í takt við þjóðarbúið og það væri bæði þjóðarbúið sem væri að minnka erlendar skuldir sínar og ríkið sem væri að minnka erlendar skuldir sínar. Það sem við höfum verið að gagnrýna hér er það að á sama tíma og frumkvæðisaðili í atvinnulífinu hafi stuðlað að því að erlendar skuldir minnki þá skuli ríkið vera að auka þær og vega þannig upp að einhverjum hluta þann jákvæða árangur sem atvinnulífið hefur náð. Við höfum auðvitað tekið eftir því og fleiri tekið eftir því að hæstv. forsrh. hefur aldrei verið fáanlegur til þess að ræða þessa aukningu á erlendum skuldum ríkisins.
    Síðan er rétt að hæstv. forsrh. átti sig á því að tveir bankastjórar Seðlabankans og í þeim hópi er ekki sá sem hann gerði að umtalsefni hér fyrr í dag, hafa lýst því yfir núna nýlega að kaup Seðlabankans á húsbréfunum hafi verið tímabundin og það er þess vegna ekki þannig að Seðlabankin hafi gefið út yfirlýsingu um það að hann muni stunda þessi kaup áfram, þvert á móti. Og það er tilefni þeirrar fyrirspurnar sem ég bar hér fram í dag og hef ekki enn þá fengið svar við.