Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 18:25:13 (729)

[18:25]

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. er sérfræðingur í því að afflytja það sem hann les eða heyrir. Á 4. bls. í þessu frv segir: ,,Lægri lánsfjárþörf ætti að hafa áhrif á vexti til lækkunar ef markaður starfar óheftur og lántökur annarra aðila, þ.e. sveitarfélaga, heimila og atvinnufyrirtækja, aukast ekki.``
    Þetta er engin stefna. Það er staðreynd um það að það er heildareftirspurnin sem auðvitað ræður og framboð sem ræður vaxtastiginu á hverjum tíma. Þetta veit hv. þm. og annað er útúrsnúningur.
    Í öðru lagi kom hv. þm. með mynd sem hann hafði stækkað út úr Hagtölum mánaðarins, mynd sem sannar bara eitt: Að vextirnir í dag og á undanförnu ári eru mun lægri en vextirnir voru þegar hv. þm. var fjmrh. Í fyrsta lagi þetta og í öðru lagi sannar það það sem kemur fram á bls. 6 í frv. sem hér er til umræðu að það er pláss fyrir vaxtalækkun í bankakerfinu. Þetta er það eina sem kemur fram á þessum myndum hér og hv. þm. getur sýnt þetta sem skólabókardæmi um það að munurinn á stefnu þessarar ríkisstjórnar og stefnu ríkisstjórnarinnar sem hann var í er sá að okkur hefur tekist að lækka vextina sem honum tókst ekki. Og af hverju var það? Það var vegna þess að í lok tímabilsins voru vextirnir ákveðnir af ríkisstjórn Ólafs Ragnars Grímssonar þegar hann var fjmrh. með þeim hætti að það var stórfelld innlausn á spariskírteinum og hann seldi ekki eitt einasta skírteini. Þess vegna varð að byrja á því að hækka vextina, bæði skammtímavextina og langtímavextina því að auðvitað gat ekki við svo búið staðið. Og heldur hv. þm. að það sé ekki munur á því þegar við erum annars vegar með viðskiptaafgang við erlendar þjóðir að geta þá sótt án þangað heldur en þegar viðskiptahallinn var 20 milljarðar kr. eins og hann var þegar hv. þm. endaði sinn feril sem fjmrh.? Ef hann hugsar þetta mál þá sér hann hvers konar reginmunur er á þessum tveimur stöðum annars vegar stöðunni nú og hins vegar þegar hann lauk sínum valdaferli.