Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 18:27:36 (730)

[18:27]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það væri nú nær að hæstv. fjmrh. svaraði einhverju af þeim fyrirspurnum sem til hans var beint heldur en að flytja ræður af þessu tagi. Ástæðan fyrir því að ég vek athygli á því sem stendur hér bls. 4 er ekki að þetta er lýsing á staðreyndum. Þetta er lýsing á forsendunni fyrir 14,4 milljarða kr. lánsfjárþörf á næsta ári. Þetta er lýsingin á forsendunum. Forsendan fyrir þessari lágu lánsfjárþörf sem forsrh. og fjmrh. eru búnir að hæla sér af bæði hér í stefnuræðu og fjárlagaræðu er að atvinnufyrirtækin haldi svona að sér höndum, atvinnulífið dragist saman, engin sókn verði hjá fyrirtækjarekstrinum á Íslandi á næsta ári. Það er forsendan fyrir þessari 14,4 millj. kr. tölu þannig að hæstv. fjmrh. ætti nú að reyna að skilja hvað í hans eigin texta stendur og samhengið í því sem hann og aðrir eru að gera. Og ætla sér svo að halda því fram hér að það sé enginn munur á erlendri lántöku og innlendri lántöku, hvers konar rugl er þetta eiginlega? Haldið þið að það sé ekki munur á því hvort lánin eru háð breytingum á erlendum gjaldmiðli og hvort fjármagnið fer út úr íslenska hagkerfinu þegar borgað er af lánunum eða hvort það fer inn í íslenska hagkerfið og leiði þar til uppsprettu athafna og framfara þegar borgað er vegna þess að lántakan er innan lands? Að sjálfsögðu. Enda er það enn eitt veikleikamerkið á hagstjórninni núna að það þarf að leita í svona ríkum mæli út á erlenda markaði. Ég held að fjmrh. ætti að kynna sér það í fjmrn. hjá Lánasýslunni hver var innlausnin og hver var salan á spariskírteinunum á fyrstu mánuðum ársins 1991 þar til ég fór úr fjmrn. Ég man ekki betur og væri rétt að hæstv. fjmrh. kannaði það að innlausnin hafi verið minni en salan, innlausnin hafi verið minni en salan. En við skulum bara kíkja á þær staðreyndir, hæstv. fjmrh., þegar ráðherrann kemur með þær hingað eftir kvöldmat. Og þá skulum við bara skoða dæmið þegar hæstv. fjmrh. hefur lagt á borðið tölurnar um innlausn og sölu verðbréfa ríkissjóðs, spariskírteinanna á fyrstu mánuðum ársins 1991.