Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 18:37:04 (735)

[18:37]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Já, ég tek undir það og hef gert það áður, þessa meginhugsun að fagráðherrar séu viðstaddir fjárlagaumræðu, lánsfjárlög og annað það þar sem efnahagsumræðan er tekin og ég vek líka athygli á því að þessa daga á þessum fáu vikum höfum við verið að taka umræðu um fjárlög, lánsfjárlög, fjáraukalög, lánsfjáraukalög og það hefur verið tekin efnahagsumræða undir öllum þessum þáttum, nokkuð frítt og frjálst hefur mér sýnst. Þess vegna vek ég athygli á því að síðast þegar við tókum slíka efnahagsumræðu þá var einmitt kallað eftir þeim ráðherra sem hér situr án þess þó að hann tengist málinu hafi verið mikið kallað eftir viðbrögðum hans í dag.
    Það sem ég vek athygli á er að þrátt fyrir þessi meginviðhorf þá er það þannig að bæði ráðherrar sem og þingið þurfa að gera áætlun fram í tímann og þess vegna var ég að vekja athygli á því að við getum ekki einu sinni í dag gengið út frá því sem vísu að það sem fyrirhugað er að setja á dagskrá næsta þriðjudag geti orðið þá.