Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 18:38:15 (736)

[18:38]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það vissu það allir að það mundi verða töluverð umræða um lánsfjárlagafrv. Það var á dagskrá í dag. Hæstv. viðskrh. gat tekið mið af því. Ég átti líka að vera á fundi í kvöld, hv. þm., í okkar kjördæmi. Ég hef aflýst veru minni á þeim fundi vegna þeirrar umræðu sem hér fer fram vegna þess að ég hef talið mikilvægara að sinna þingskyldu minni og taka þátt í þessum umræðum heldur en að fara á fund sem ég var boðaður til. Ég tel að hæstv. viðskrh. hefði í morgun alveg eins getað frestað sínum fundi á Höfn í Hornafirði. Það bar enga brýna nauðsyn til að halda hann í kvöld, enga brýna nauðsyn.
    Ég held að það sé mjög mikilvægt að ráðherrarnir og stjórn þingsins og forusta þingflokka ríkisstjórnarflokkanna geri sér grein fyrir því að það fer að koma að því að þolinmæði okkar gagnvart þessari fjarveru ráðherranna bresti.