Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 18:59:19 (740)

[18:59]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. félmrh. segir að allt umhverfið kalli á lækkun vaxta en þá hækki bankarnir vextina. Það skyldi nú ekki vera að það sé svo að hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstjórn átti sig ekki á því í hvaða umhverfi þeir lifa og þeir átti sig ekki á því hvaða aðstæður þeir hafa skapað á peningamarkaðnum. Það væri kannski ástæða til þess að hæstv. fjmrh. þó að hann sé ekki í andsvari við mig hér, endurskoði eilítið þá aðstöðu sína að hann einn viti og hafi vit á íslenskum peningamarkaði. Það var athyglisvert og auðvitað gat hæstv. fjmrh. ekki svarað öðruvísi en þannig að með vaxtahækkuninni í dag er enn verið að þrengja að þeim sem verst eru settir peningalega og það er enn verið að rýra stöðu þeirra sem eru í vanskilum með húsbréfin sín að standa í skilum. Þetta er allt saman gert í skjóli þeirrar peningastefnu sem núv. hæstv. ríkisstjórn rekur.