Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 21:08:50 (744)

[21:08]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér í ræðustól út af húsbréfaumfjöllun hv. þm. Það hefur verið gefið til kynna að vanskil húsbréfanna séu jafnvel 15 milljarðar. Það kom fram á fundi okkar í Húsnæðisstofnun í dag að stokkurinn er 57 milljarðar kr., vanskilin eins og þeir reiknuðu 700 millj. Það eru 17 þús. einstaklingar með lán og í vanskilum um það bil 3 þúsund manns. Mér finnst mikilvægt að þessar upplýsingar komi fram.
    Það var einnig nefnt hérna áðan hvort það að fækka íbúðum í Byggingarsjóði verkamanna væri eitthvað sem verkalýðshreyfingin sætti sig við. Það var úthlutað sl. vor um 505 íbúðum og það er búið að gera samninga um 126 íbúðir. Meðaltalið sl. sex ár hefur verið 490 íbúðir á ári. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta komi fram vegna þess að það hefur orðið hreyfing á þessum markaði. Umsóknir eru u.þ.b. helmingi færri það sem af er ársins heldur en hefur verið á ári undanfarin ár og það má búast við að það losni um þegar ákveðinn stokkun félagslegs húsnæðis er orðin í sveitarfélagi, þá má búast við að það verði hreyfing því það er ekki þannig hjá okkur að fólk fari í félagslega íbúð og ákveði að vera í henni alla ævi. Fólk er tímabundið í þessum íbúðum. Það gæti verið skýring.
    Ég vil líka nefna varðandi húsbréfin og vanskil þeirra að áður en húsbréfin komu til þurfti fólk við húsnæðisöflun að taka lán á mörgum stöðum. Það var lögð mikil áhersla á að samræma lán í eitt stórt lán. Það sýndi sig líka við umræður okkar í dag að það er reynsla þeirra sem fjalla um þessi mál að fólk hefur freistast til að fara í nýjar fjárfestingar af því að húsnæðisfjárfestingin var gerð auðveld.