Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 21:47:51 (758)

[21:47]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Allmiklar umræður hafa farið fram um lánsfjárlög og eðlilega verið fjallað um efnahagsmálin og vaxtamál. Áður en ég vík að því vildi ég minnast á eitt atriði sérstaklega í þessu frv. og vekja athygli hæstv. fjmrh. á því en það eru lánsfjárheimildir til sjóðanna. Sérstaklega þá Stofnlánadeildar landbúnaðarins en í athugasemdum við frv. segir svo um það atriði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Stofnlánadeild landbúnaðarins. Miðað er við að Stofnlánadeild landbúnaðarins verði heimiluð lántaka að fjárhæð allt að 700 m.kr. á árinu 1994 og er það sama fjárhæð og á þessu ári. Til upplýsinga skal þess getið að Stofnlánadeild landbúnaðarins áætlar að taka 175 millj. kr. að láni frá Lífeyrissjóði bænda og er sú lántaka að öllu leyti án ábyrgðar ríkissjóðs eins og fyrri lántökur sem þessar.`` Síðan segir áfram, með leyfi forseta:
    ,,Byggðastofnun. Lagt er til að Byggðastofnun verði heimiluð lántaka að fjárhæð allt að 1.000 millj. kr. á árinu 1994. Lántökur Byggðastofnunar eru áætlaðar 600 millj. kr. á þessu ári. Miðað er við að útlánageta stofnunarinnar sé óbreytt milli ára en afborganir og vextir af teknum lánum aukast verulega milli ára.``
    Hér vænti ég að sé prentvilla í báðum þessum umsögnum þannig að hér sé átt við árið 1995 sem sé verið að gefa skýringar á hvað sé áætlað að lánsfjárheimildir eigi að vera miklar enda er það í samræmi við frv.
    En það sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á er að um Stofnlánadeild landbúnaðarins gildir það sama og um Byggðastofnun að á þessu ári eru afborganir af teknum lánum miklu hærri en það sem kemur inn af veittum lánum vegna þess að á síðustu árum hafa lántökurnar verið til skamms tíma. Búist er við að afborganir af lánum Stofnlánadeildar á þessu ári verði töluvert á annan milljarð króna og því má búast við að þar verði erfitt að ná endum saman og það sama muni gilda á næsta ári. Ég vildi því beina því til hv. efh.- og viðskn. að taka þetta atriði sérstaklega til skoðunar og tel að það hljóti að vera nauðsynlegt til þess að hafa hærri upphæð til að jafna mismuninn á fengnum lánum og veittum lánum hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins.
    Ég vil bera fram spurningar til hæstv. fjmrh. um vaxtamálin. Ég ræddi það fyrir skömmu síðan við 1. umr. fjárlaga en sama dag og sú umræða fór fram fór fram fyrsta útboð á svokölluðum ECU-bréfum. Ég spurði þá hæstv. fjmrh. að því hvaða áhrif væri gert ráð fyrir að útgáfa þessara bréfa mundi hafa og fékk þau svör frá hæstv. ráðherra að engar áætlanir lægju fyrir um það. Hins vegar væri talið mikils virði að auka fjölbreytni á markaðnum. Nú langar mig að spyrja hæstv. fjmrh. að því hver reynslan hafi orðið þessa fáu daga sem liðnir eru síðan.
    Ég sagðist óttast þá að þessi nýju bréf með 8% skráðum vöxtum leiddu til vaxtahækkunar á önnur bréf með lægri nafnvöxtum, að útgáfa þeirra leiddi til vaxtahækkunar á markaðnum og þá með meiri afföllum af bréfum sem skráð væru með lægri vöxtum. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. ráðherra að því hver hafi orðið reynslan af sölu þessara bréfa það sem liðið er síðan. Hafa önnur ríkisskuldabréf selst í miklum mæli síðan sala þessi byrjaði og seldust þessi ECU-bréf á nafnverði, 8%? Var það þá nægjanlegt og ef svo var ekki, var þá nauðsyn til þess að selja þau eða þurfti að selja þau með einhverjum afföllum?
    Síðan má spyrja hvort hæstv. fjmrh. tengi ekki saman þá daglegu hækkun sem núna er á ávöxtunarkröfu af húsbréfum og þar með hækkandi afföllum við sölu þeirra sem samkvæmt upplýsingum hjá Húsnæðisstofnun hækkuðu síðast í morgun. Þar sem hæstv. ráðherrar hafa haldið því fram að öll skilyrði væru til þess að vextir færu lækkandi, hæstv. ráðherrar hafa lýst því yfir frá því að umræður hófust núna á Alþingi um vaxtamálin, þá verður að ætla að það hljóti eitthvað sérstakt að hafa gerst sem hafi breytt því að spár þeirra rættust ekki og er þá líklegt að það sé útgáfa þessara nýju bréfa sem ég varaði við við 1. umr. fjárlaga?
    Hæstv. forsrh. hefur rætt mjög um það hvað vaxtalækkun sé nú mikil en ef litið er á vexti af verðtryggðum bankalánum eins og þau voru í septembermánuði sl. þá eru þau næstum nákvæmlega eins og þau voru þegar núv. hæstv. ríkisstjórn tók við í apríllok árið 1991, þ.e. um rúmlega 8%. En nú hafa þau hækkað og síðast í dag þannig að þau munu vera komin eitthvað töluvert upp fyrir það sem þau voru þegar ríkisstjórnin tók við, þ.e. verðtryggð bankalán, meðallán fyrir hinn almenna lántakanda. En á tímabilinu frá maí 1991 og fram í október 1993 voru þau um það bil 1,5--2% hærri og það er sú vaxtahækkun sem t.d. einstaklingar hafa þurft að greiða meira fyrir þessi lán. Við sjáum að lán einstaklinga voru á miðju þessu ári komin upp í 250 milljarða að mig minnir, þá er 1,5--2% hærri vextir af þeirri upphæð ekki lítil baggi á einstaklingana. Því miður virðist sem þær vonir og væntingar sem ráðherrar hafa gefið að undanförnu í vaxtamálum séu ekki í samræmi við þann raunveruleika sem við búum við þessa stundina.
    Ég skal ekki fara miklu fleiri orðum um þetta en vildi vekja sérstaka athygli á tvennu. Í fyrsta lagi á heimild til lánveitinga til handa Stofnlánadeild landbúnaðarins á næsta ári og svo í öðru lagi hvernig hæstv. fjmrh. metur reynsluna af útgáfu ECU-bréfanna þennan stutta tíma sem þau hafa verið og hvaða áhrif hann telur að útgáfan hafi haft á vaxtamálin og hvort þar sé að einhverju leyti að leita skýringanna á vaxtahækkunum síðustu daga, bæði á húsbréfum og svo nú úr bankakerfinu, hvort þar sé ekki samband á milli eða hverra annarra skýringa hann sé þá hugsanlega að leita ef svo er ekki.