Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 23:27:08 (768)

[23:27]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann veitti við spurningum mínum sem voru ágæt svo langt sem þau náðu. Ég ætla að fara lítillega yfir þau.

    Þá kannski fyrst og fremst það að hæstv. ráðherra talaði þannig að það væri ekki ástæða til að gera ráð fyrir sérstökum erfiðleikum lánsfjárlaganna á næsta ári vegna fólks í greiðsluerfiðleikum. Hann taldi að það væri engin ástæða til að óttast það bankahrun sem ella gæti orðið ef vanskil almmenings fara að hrannast upp í bönkunum. En auðvitað er það almenningur sem stendur undir þessum bönkum öllum þegar upp er staðið. Hann gerði alveg ótrúlega lítið úr því sem fram kom m.a. í ræðu seðlabankastjóra í dag og hefur komið fram í ummælum seðlabankastjóra, fleiri en eins, að undanförnu að húsbréfin hefðu myndað tiltekinn tappa í vaxtakerfinu að undanförnu og þarna væri um verulega alvarlegt vandamál að ræða. Ég held satt að segja að það sé ekki skynsamlegt fyrir ríkisstjórnina að afgreiða þessa hluti eins og vanskilin séu munnangur. Ég held að það sé mjög hæpið að slá því föstu að vanskilin séu munnangur. Og ég held að það sé líka mjög mikill misskilningur að slá því föstu að nauðungaruppboðin séu munnangur. Ég er alveg viss um að þegar kemur að því að þessir hlutir fara að hrynja ofan í hausinn á bönkunum þá munu menn nota aðrar sjúkdómslýsingar en að um sé að ræða munnangur.
    Auðvitað má segja að ummæli hæstv. forsrh. í dag um einn af bankastjórum Seðlabankans hafi verið alveg með ólíkindum satt best að segja. M.a. með hliðsjón af því að ég veit ekki betur en að um það hafi verið pólitískt samkomulag í núv. ríkisstjórn að þannig yrði að málum staðið að þessi maður yrði seðlabankastjóri.
    Ég tel satt að segja að stráksleg og gáskaleg ummæli hans um það að ekki sé varasamt og í lagi sem seðlabankastjórar hafi í hálsinum en hins vegar sé verra ef það komi úr hálsinum. Satt best að segja þá tel ég að þessi ummæli séu alveg ótrúleg. Og ég óttast að það verði ekki hægt að afgreiða vanskilaöldu almennings í bankakerfinu jafnléttúðlega og hæstv. forsrh. gerði hér í dag þegar hann var að reyna að afgreiða seðlabankastjóra. Ég óttast að hlutirnir séu miklu alvarlegri en svo að menn geti leyft sér að tala um greiðsluvanda almennings í landinu sem munnangur einstakra seðlabankastjóra. Mér liggur við að segja því miður. Það væri auðvitað gott ef hægt væri að afgreiða greiðsluvanda almennings með þessum strákslega hætti. En það er ekki svo. Hér er um að ræða greiðsluvanda á þúsundum og aftur þúsundum heimila í landinu. Þessi skætingsafgreiðsla á seðlabankastjóranum var því hvorki smekkleg né viðeigandi og auk þess beinlínis hættuleg því hún lýsir kæruleysi ( JGS: Hún lýsti forsrh. best.) gagnvart því verkefni fyrst og fremst sem ríkisstjórnin á að vinna á hverjum tíma.
    Í öðru lagi vil ég svo þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar sem fram komu hér varðandi greiðsluaðlögunarkerfi. Það kom mér mög mikið á óvart. Hæstv. félmrh. sagði í dag að unnið væri að samningu frv. um greiðsluaðlögunarkerfi. En hæstv. fjmrh. sagði núna áðan: Engar endanlegar niðurstöður liggja fyrir sem lagðar hafa verið fyrir ríkisstjórnina, með leyfi forseta, hygg ég að hæstv. fjmrh. hafi orðað þetta þannig. Ég vil þá endurtaka og ítreka spurninguna til hæstv. fjmrh.: Er fjmrn. aðili að starfshópi eða einhverjum vettvangi þar sem unnið er að því að semja frv. til laga um greiðsluaðlögun?
    Það er alveg nauðsynlegt að það komi fram einmitt í lánsfjárlagaumræðunni vegna þess að ef lánsfjárlagaumræðan á að fara fram með eðlilegum hætti þá þurfa menn að átta sig á því að forsenda breytinga á greiðsluaðlögun er ný fjáröflun. Það verður því að fást botn í þessi greiðsluaðlögunarmál fyrir áramót, fyrir afgreiðslu fjárlaga og fyrir afgreiðslu lánsfjárlaga. Það er algjörlega óhjákvæmilegt.
    Spurningin er auðvitað, hæstv. forseti: Getur það verið að um þetta mál sé e.t.v. ágreiningur í ríkisstjórninni því hæstv. fjmrh. upplýsti að þessi mál hefðu komið til umræðu í tengslum við breytingu á lögum um gjaldþrot á sínum tíma? Hæstv. ráðherra tók þannig til orða að það yrði nauðsynlegt við lög um greiðsluaðlögun að tryggja jafnræði aðilanna. Það er rétt. Það bendir til þess að hæstv. fjmrh. hafi a.m.k. hugleitt þessi mál. Ég held að það sé þess vegna mjög áríðandi að fá það alveg á hreint núna: Hvar stendur þetta mál? Eru menn í sameiningu í félmrn. og fjmrn. að semja frv. um greiðsluaðlögun?
    Mér er kunnugt um það, hæstv. forseti, að á skrifstofum verkalýðsfélaganna í Reykjavík binda menn miklar vonir við þá vinnu sem hefur verið unnin af því að svona afdráttarlausar yfirlýsingar hafa verið gefnar úr félmrn. Mér er kunnugt um að afstaða manna til margvíslegra þátta kjaramála mun að talsverðu leyti ráðast af því hvort hér verður afgreitt með einhverjum hætti frv. um greiðsluaðlögun í vetur. Vegna þess að annars blasir við gjaldþrota hrina, alda eða bylgja á næsta ári sem getur komið í hausinn á bankakerfinu eins og seðlabankastjóri benti á í dag. Þess vegna er alveg óhjákvæmilegt að halda mönnum stíft við efnið í þessum efnum. Er einhver hópur að vinna í þessu verki eða er þetta bara hugarfóstur félmrh. og einskis annars? Það er nauðsynlegt að fá um það upplýsingar, hæstv. forseti, frá hæstv. fjmrh. í kvöld.
    Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar sem fram komu frá honum varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna um að niðurstaða kæmi fljótlega úr þeirri nefnd sem getið er um í greinargerð fjárlagafrv. Ég tel einnig mikilvægt að þær upplýsingar hafa komið fram frá hæstv. fjmrh. að það eru uppi hugmyndir um að lækka ríkisábyrgðargjaldið frá því sem það er, þ.e. alla vega að lækka lántökukostnað Lánasjóðs ísl. námsmanna þá með breytingum á þeim gjöldum sem sjóðurinn er að borga vegna lántöku.
    Ég vil einnig þakka hæstv. fjmrh. fyrir það sem hann sagði varðandi Iðnlánasjóð. Ég skildi hann svo að engin áform væru uppi um að taka hann inn í ríkisbankakerfið. Menn væru fallnir frá þeim hugmyndum sem fyrrv. viðskrh. og iðnrh. var með varðandi þennan sjóð en samt sem áður væru menn ekki með hugmyndir um að slá honum inn í ríkisbankakerfið. Ég tel að það sé út af fyrir sig gott.
    Hæstv. forseti. Í ræðu sinni vék hæstv. fjmrh. aðeins að handboltahúsinu og það er alveg óhjákvæmilegt að fara yfir það mál. Í frv. til lánsfjárlaga stendur að ríkissjóður muni eiga veð í eignarhluta ÍSÍ

í húsinu. Ef það kæmi nú í þetta nauðungaruppboð, sem við vorum að tala um fyrr í kvöld, þá yrði partur af húsinu tekinn og lokað, það yrði ekki allt húsið, ekki allur landsfundur Sjálfstfl. sem yrði seldur á fæti á nauðungaruppboði ef til kæmi heldur bara sá partur íhaldsins sem væri í viðbyggingunni. En síðan kom það fram í ræðu hæstv. fjmrh. að hann ætlar ekkert endilega að rukka þetta lán. Hann ræddi um að sennilega yrðu höfð einhver makaskipti og gaf þannig berlega í skyn að í rauninni ætlaði hann, ef hann réði einhverju, ( JGS: Og Ellert Schram.) og Ellert Schram, eða hæstv. fjmrh. ætlaði að fara heldur mildum höndum um Ellert Schram. ( JGS: Hann tekur hann upp í skuldina.) Það er mjög mikilvægt að yfirvaldið skuli vera svona milt í þessu máli að sennilega sé þetta meiri og minni markleysa sem stendur í þessum texta, að eftir sem áður geri fjmrh. ráð fyrir að þetta verði aldrei rukkað vegna þess að menn hafi einhver makaskipti einhvern tímann síðar á öldinni eða á fyrri hluta næstu aldar, skulum við segja. Að öðru leyti verði menn ekki að fara svo smásmugulega í saumana á þessum lánapappírum sem ÍSÍ verður neytt til að skrifa upp á. Ég held að það sé út af fyrir sig ágætt að slík yfirlýsing frá hæstv. fjmrh. liggi fyrir að ekki verði farið að sauma mjög að íþróttahreyfingunni út af þessum lántökum.
    Hins vegar verð ég að segja alveg eins og er að þegar hæstv. fjmrh. grípur til þess ráðs að kenna Kópavogsbæ um það að ekki mátti setja peninga í Laugardalshöllina við þær aðstæður sem nú eru uppi þá finnst mér skörin vera farin að færast upp í bekkinn. Getur það verið að núv. meiri hluti í Kópavogi hafi beitt sér gegn því að ríkið legði fram fjármuni í þessu skyni í Reykjavík? Getur það verið? Getur það verið að menn séu þar þannig staddir að þeir hafi beitt sér gegn því að ríkið stæði þannig að hlutum í Reykjavík að það yrðu lagðir fram fjármunir í þetta íþróttahús? Það er satt að segja alveg ótrúleg yfirlýsing sem hæstv. fjmrh. gefur að meiri hlutinn sem nú er í Kópavogi hafi beitt sér með þessum hætti sérstaklega gegn Reykjavík. Það er afskaplega afhjúpandi ef hlutirnir eru þannig hérna yfir lækinn að meiri hlutinn í Kópavogi hafi beitt sér með þessum hætti. Það held ég að geti varla verið og alveg ótrúlegt ef fjmrh. reynir að bera það fyrir sig við þær aðstæður sem nú eru uppi.
    Auðvitað er það þannig, hæstv. forseti, að Sjálfstfl. bar frá upphafi vega alla ábyrgð þessa íþróttahússmáls. Það var ekkert annað en pólitísk meinbægni sem réði því að HSÍ-menn voru kúgaðir til að skrifa undir þessar yfirlýsingar grátandi á sinni tíð og takandi við tugmilljónum króna til að hafa sig hæga með frekari kröfur út af þessu íþróttahúsi. Það var bara pólitísk meinbægni og ekkert annað. Auðvitað er það fáránlegt sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. að það að samningarnir voru gerðir einhvern tímann fyrir kosningarnar 1991 geri það sjálfkrafa að verkum að þetta séu vondir samningar. Hefur ekki hæstv. fjmrh. verið að efna samninga sem gerðir hafa verið á þessum tíma og fyrri fjmrh. af fyrri ríkisstjórnum? Ég bendi t.d. á þá fjármögnunarsamninga sem fyrri fjmrh. gerðu vegna framkvæmda t.d. í Stykkishólmi eða á Selfossi, svo dæmi séu tekin, og menn hikuðu ekki við að gera. Ætla menn svo að koma alveg vatnsheilagir og segja: Þetta voru vondir samningar af því að þeir voru gerðir rétt fyrir kosningar? Rétt eins og Sjálfstfl. hafi aldrei heyrt talað um fjármögnunarsamninga sem gerðir hafi verið. Þarf þó ekki að fara lengra en út í Landsbanka hér til að spyrja t.d. bankastjóra sem þar situr um nokkra samninga sem gerði voru á hans tíð um ýmis skólahús og íþróttahús á ótrúlegustu stöðum í landinu.
    Staðreyndin er sú að Sjálfstfl. hefur ekki af miklu að má í þessu efni, ekki af miklu að má. Það munaði engu að Sjálfstfl. tækist að halda þannig á þessu íþróttahúsmáli að það væri Íslandi til skammar á alþjóðavettvangi. Halda þannig á þessu máli að í raun og veru mundi Ísland aldrei bíða þess bætur í alþjóðlegum samskiptum í íþróttahreyfingunni og það var á síðustu stundu sem tókst að bjarga því fyrir horn, m.a. af meiri hlutanum í Reykjavík, hinum nýja meiri hluta, að það er hægt að horfa fram til þess að þetta íþróttamót verði haldið. Þannig er staðan í dag. Þess vegna verður að segja alveg eins og er að það er ótrúleg bíræfni, liggur mér við að segja, að aðalforustumenn Sjálfstfl. í fjármálum, hv. varaformaður fjárln. og hæstv. fjmrh. að þeir skuli núna loksins, 24. eða 25. okt. 1994 þora að segja örfá orð um þetta mál í frammíkalli. Miklar hetjur eru þeir, hæstv. forseti.
    Ég hef síðan borið fram eina fyrirspurn í viðbót varðandi greiðsluaðlögunarkerfið, hvort unnið er að því á vegum ráðuneytanna sameiginlega, en að öðru leyti ætla ég ekki að lengja þessa umræðu af minni hálfu.