Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 23:42:56 (769)

[23:42]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er mjög undarlegur málflutningur sem hv. 9. þm. Reykv. hefur haft hér uppi vegna byggingar íþróttahúsa. Það er nú þannig að með breytingum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga var sú ákvörðun tekin að það væri á verksviði sveitarfélaga að byggja íþróttahús. Þess vegna kemur það mjög mikið á óvart að hv. þm. skuli nú krefjast þess nánast að ríkisvaldið gangi fram fyrir skjöldu gagnvart einstökum sveitarfélögum og ætlist til þess að e.t.v. vegna þess að R-listinn er með meiri hluta í Reykv. þá skuli ríkisvaldið koma til skjalanna og leggja til sérstaka fjármuni til eins sveitarfélags á Íslandi.
    Það rifjar náttúrlega upp afstöðu hv. þm. til þess að þegar það kom til að það þyrfti nú að ganga frá uppgjöri vegna nokkurra íþróttahúsa m.a. sem gerðir voru samningar um við sveitarfélög og ég þekki nú vel, þingmaðurinn var ekki mjög áhugasamur um það þegar hann var ráðherra að ganga frá eða standa

við samninga sem gerðir voru þannig að þetta er mér mjög mikið umhugsunarefni þegar hv. þm. gengur núna fram fyrir skjöldu og vill gera alveg sérstaklega vel við eitt sveitarfélag í landinu vegna handboltahallar. Þetta vakti athygli mína í ræðu þingmannsins og ég mátti til með að hafa orð á því hér í andsvari.