Samkomulag þingflokksformanna um mál á dagskrá

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 13:33:55 (779)



[13:33]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í gær áttu þingflokksformenn með sér fund þar sem rætt var um dagskrá þessarar viku og þá var gert samkomulag um það að í gær yrði lokið umræðum um fjáraukalög og lánsfjárlög og síðan var lögð mikil áhersla á að það kæmist á dagskrá mál sem hér er nr. 7 í dag og ber heitið Takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu. Það var ekki gert ráð fyrir því að önnur mál yrðu afgreidd á fundinum. Hér var kvöldfundur í gærkvöldi og ég varð að fara af fundi rétt fyrir kl. 10.30 og taldi þá að umræðu um lánsfjárlög væri rétt að ljúka sem varð raunin, en hér sé ég að það hafa verið tekin fyrir dagskrármálin Ríkisreikningur 1991, Ríkisreikningur 1992, Bókhald og Ársreikningar. Fjögur mál voru tekin á dagskrá eftir að umræðum um lánsfjárlög lauk. Ég vil gera athugasemd við þetta. Ég tel að þegar þingflokksformenn gera samkomulag um það hvaða mál skuli tekin fyrir, þá eigi það samkomulag að standa. Við gefum upplýsingar til okkar þingmanna um það hvað verði á dagskrá og fólk hagar sínum tíma í samræmi við það. Við vitum að það ríkir hér ákveðin verkaskipting milli þingmanna þó að þeir hafi auðvitað skyldu til þess að mæta, en ég veit ekki til hvers við erum að gera samkomulag um það hvað skuli rætt ef svo eru tekin mál á dagskrá sem enginn á von á. Og ég veit um þingmenn sem höfðu ekki hugmynd um að þessi mál yrðu tekin hér á dagskrá. Þetta er algjörlega óviðunandi.