Samkomulag þingflokksformanna um mál á dagskrá

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 13:40:09 (784)

[13:40]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég var hér í gærkvöldi og gerði ekki athugasemdir við að þessi mál kæmu á dagskrá. Það var reyndar ekki samráð við mig um það en það var talað við þá sem hér voru, hvort það væri heimilt að taka þessi mál fyrir og þau voru tilbúin til þess. Ég skildi fund þingflokksformanna þannig að það yrði ekki kvöldfundur nema þessum þrem málum yrði ekki lokið. Ég skildi fundinn ekki þannig að það yrðu alls ekki tekin fyrir fleiri mál á dagskrá ef sátt yrði um það þannig að ég hef þá bara skilið það rangt. Samkomulag okkar var um það að ekki yrði kvöldfundur á þriðjudagskvöld nema ekki hefði tekist að ljúka

þessum málum sem fyrirhuguð voru og ég skildi þetta ekki þannig að það mætti ekki taka fleiri mál af dagskránni til umræðu ef sátt yrði um það af þeim sem hér væru.
    Frú forseti. Ég gerði ekki athugasemdir við að þessi mál væru tekin á dagskrá. Það var heldur ekki haft samráð við mig sem slíka um það. Ég var hér í húsinu.