Samkomulag þingflokksformanna um mál á dagskrá

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 13:43:22 (786)

[13:43]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir það sem fram kom hér hjá hv. 15. þm. Reykv. að það er auðvitað mjög sérkennilegt að taka hér fyrir fleiri, fleiri þingmál, stjórnarfrumvörp, án þess að ræða við einn þingflokkinn um málið sem hafði staðið í þeirri trú að tekin hefði verið ákvörðun um að taka málin ekki fyrir á fundinum í gærkvöld. Og auðvitað er það líka alveg lágmark að hæstv. fjmrh. fái að vita um málin þegar gengið er frá þeim á milli formanna þingflokkanna og forseta Alþingis. Ég verð að segja að það er mjög sérkennilegt ef hæstv. forseta Alþingis tekst hvorugt, að koma niðurstöðum funda á framfæri við hæstv. fjmrh. né heldur það að koma breytingum á framfæri við heilu þingflokkana. Ég held að það sé nauðsynlegt að formenn þingflokkanna tali rækilega við hæstv. forseta þannig að misskilningur af því tagi sem hér er uppi komi ekki upp með þeim hætti sem hér hefur verið lýst því að það er bersýnilegt að hér eru verulega alvarlegar brotalamir í vinnubrögðum forseta Alþingis. Það er ljóst.
    Í öðru lagi er það þannig, hæstv. forseti, að eitt af þeim málum sem var tekið hér í gegn í gærkvöld mjög hratt er ágreiningsmál. Það er alveg ljóst að hv. þm. Pálmi Jónsson hefur þing eftir þing haft margt að athuga við ríkisreikninginn fyrir árið 1991 og frv. til staðfestingar á honum. Það hef ég haft líka. Ég leit svo á að þegar hafin var umræða um það mál hér í gærkvöldi, þá hlyti það að hafa gerst með samkomulagi við alla aðila, m.a. þann þingmann sem hefur beitt sér sérstaklega í umræðum um þetta mál þing eftir þing og er hv. þm. Pálmi Jónsson. Ég tel því að málið hafi þann svip, þó það hafi kannski ekki verið ætlunin, að menn hafi vísvitandi viljað fara fram hjá þeim ágreiningi sem er við þennan hv. þm. og það vil ég líka gagnrýna. Ég skora á hæstv. forsætisnefnd að ræða það rækilega við forseta Alþingis að betur verði framvegis haldið á málum en virðist hafa verið gert í gærkvöldi.