Samkomulag þingflokksformanna um mál á dagskrá

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 13:49:22 (790)

[13:49]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Formenn þingflokka voru kallaðir til fundar við forseta Alþingis í hádeginu í gær til þess að ræða störf þingsins þann dag. Forseti þingsins hafði hugmyndir uppi um að halda hér kvöldfund. Því var mótmælt af formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar af þeirri ástæðu að það væri of skammur fyrirvari og þar sem það væri líka annað kvöldið í röð sem fundur yrði haldinn. Þá óskaði forseti þingsins sérstaklega eftir því hvort ekki væri hægt að ná samkomulagi um að ljúka umræðu um þrjú mál, lánsfjáraukalög, lánsfjárlög og það mál sem mest lá á að koma í gegnum 1. umr. þingsins, 7. málið á dagskrá í dag, sem er takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu sem er stjfrv. Ég gerði allflestum þingmönnum Framsfl. sem ég náði til þar sem ekki var um þingflokksfund að ræða grein fyrir því um hvað hefði verið samið. Þegar ég kom hins vegar hér í morgun og sá að ekki hafði verið tekið til umræðu takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu, þá áttaði ég mig reyndar ekki á hvað hefði gerst í störfum þingsins, hvort þá hefði einhver breyting orðið á. En ríkisreikningur hafði verið tekinn til umfjöllunar sem ekki var minnst á af forseta þingsins að ætti að koma til umræðu þennan dag þannig að við það samkomulag sem var gert milli allra þingflokksformanna og forseta þingsins hefur augljóslega ekki verið staðið. Nú er enginn að ásaka fjmrh. í þeim efnum. Það er auðvitað forseta þingsins að koma þessum skilaboðum og sjá um að hægt sé að standa við það samkomulag sem gert var. Ég vil mótmæla þessum vinnubrögðum og maður spyr sjálfan sig: Til hvers þá að vera að gera slíkt samkomulag ef ekkert er farið eftir því?