Takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 14:03:39 (797)


[14:03]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. um takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu. Frv. gerir ráð fyrir því að ráðherra verði heimilt með reglugerð að takmarka ráðstöfun á síld til bræðslu í þeim tilgangi að tryggja nægjanlegt hráefni til vinnslu síldar til manneldis ef telja verður það nauðsynlegt. Heimildin felur í sér að slíkar takmarkanir er unnt að ákveða með þeim hætti að allri síld skuli landað til manneldisvinnslu eftir ákveðið tímamark og enn fremur á þann veg að ákveðnu hlutfalli af afla hvers báts verði eftir ákveðið tímamark ráðstafað til manneldisvinnslu. Áður en ákvörðun er tekin um þetta efni skal leita umsagnar sérstakrar samráðsnefndar samtaka fiskvinnslustöðva og Landssambands ísl. útvegsmanna.
    Í 2. gr. er tekið fram að við mat á því hvort takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu sé nauðsynleg skuli annars vegar líta til þeirra aflaheimilda sem fyrir hendi eru þegar ákvörðun er tekin og hins vegar gerðra samninga um sölu á frystum eða söltuðum síldarafurðum sem hér um ræðir. Það hefur verið áhyggjuefni á undanförnum árum í hversu ríkum mæli síld hefur farið til bræðslu. Fyrir liggur að mat Þjóðhagsstofnunar á því að vinnsluvirði síldar til manneldisvinnslu er mun meira en þegar hún er brædd. Rík atvinnusjónarmið koma líka til og mikill áhugi samtaka launafólks um að tryggja að síld fari í ríkari mæli til manneldisvinnslu. Sjútvrn. hefur fyrir sitt leyti unnið að því á undanförnum árum að freista þess með samstarfi útgerðaraðila og vinnsluaðila að snúa þróununni við. Á síðustu vertíð náðist markverður árangur í því efni með því að það hlutfall síldar sem fer til mjölvinnslu lækkaði úr rúmum 70% niður í rúm 60%. Eigi að síður er það svo að ekki er tryggt að unnt reynist að tryggja verkunaraðilum þá síld sem samningar eru gerðir um.

    Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er vitaskuld af ýmsum toga. Meginvandinn er fyrst og fremst fólginn í því að verðmismunur hefur verið óverulegur af ýmsum ástæðum. Stærsti markaður fyrir saltaða síld sem við áttum kost á í Rússlandi lokaðist. Evrópubandalagið hefur algerlega bannað um langan tíma að setja síld í bræðslu og það hefur valdið offramboði á saltsíld á Evrópumarkaði og verðhruni og síðan koma til líffræðilegar aðstæður. Síldin hefur staðið mjög djúpt og hinir hefðbundnu síldarbátar hafa átt erfitt með að veiða síld til manneldisvinnslu og stór loðnuskip hafa því í ríkari mæli tekið til sín síldarkvótana og ráðstafað síldinni. Heppilegast er að þessi mál geti þróast í frjálsum samningum milli útvegsmanna og verkenda en aðstæður eru með þeim hætti að talið er eðlilegt að veita heimildir til takmörkunar af því tagi sem hér er gert ráð fyrir.
    Á sl. hausti skipaði ég nefnd til þess að endurskoða lög um síldarútvegsnefnd og gera sérstakar tillögur um það með hvaða hætti mætti stuðla að því að síld kæmi í vaxandi mæli til manneldisvinnslu. Nefndin skilaði áfangaskýrslu um síðari hluta verkefnisins þar sem áhersla er lögð á að komið verði á fót

formlegri samráðsnefnd af því tagi sem ráðuneytið hefur stuðlað að á undanförnum vertíðum til þess að greiða fyrir miðlun upplýsinga. Jafnframt eru ábendingar um atriði er lúta að markaðsmálum, tæknilegum búnaði skipa, einkum að því er varðar kælibúnað og vakumdælur. Síðan er lagt til að ráðherra fái þá heimild til takmörkunar á ráðstöfun síldar til bræðslu sem frv. þetta gerir ráð fyrir og að veiting slíkra heimilda verði að höfðu samráði við þá samráðsnefnd útgerðar og vinnslu sem ráð er fyrir gert að starfi formlega.
    Ég vænti þess að þetta mál fái góða og skjóta afgreiðslu á hinu háa Alþingi. Ég þykist vita að hv. þm. geri sér grein fyrir því að málið er þess eðlis að heimildirnar þurfa að liggja fyrir í tæka tíð þannig að þær komi að notun á þeirri vertíð sem nú þegar er hafin. Ég legg til, frú forseti, að frv. verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.