Takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 14:10:23 (798)

[14:10]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Á verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar eru aðeins ætluð tvö mál er varða sjávarútveginn, þetta mál sem er til umræðu um takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu og hitt málið varðandi hvalveiðar. Að líkindum verður því minni umræða um sjávarútvegsmál á þessu þingi en því síðasta svo það er eðlilegt að margir vilji taka til máls. Á fiskiþingi sagði hæstv. sjútvrh. að búið væri að eyða allri óvissu varðandi þau mál er sjávarútveginn varðar, stefnuna til framtíðar og þar með er hann að sjálfsögðu að segja að búið sé að staðfesta þá kvótastefnu sem áður var lögfest.
    Þetta frv. um takmörkun síldar til bræðslu er rammi um reglugerð sem síðar verður sett eftir því sem kaupin gerast á eyrinni og er mjög eðlilegt að það sé í því formi sem það er því erfitt að henda reiður á hvernig þau kaup gerast. Í greinargerð með frv. segir reyndar allt sem segja þarf um það hvernig stendur á því að svo lítið hlutfall fer til fullvinnslu og manneldis sem raun ber vitni en á síldarvertíð 1985/1986 fer aðeins 2% í mjölvinnslu og lýsisvinnslu, en aftur á móti á síðustu vertíð fer 63% í mjöl og lýsi. Þessu vilja að sjálfsögðu allir breyta en það er ekki einfalt mál. Hæstv. sjútvrh. kom áðan inn á ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi hefur síldin verið á dýpri slóð en áður og því hafa loðnuskipin farið í ríkara mæli að veiða síldina og þau eru að mörgu leyti illa búin til þessara veiða, vantar kælibúnað í skipin, tanka og ýmislegt annað er til þarf til að koma með góða síld til vinnslu. Loðnuflotinn er því ekki nægilega vel búinn til að stunda þessa síldveiði. Fyrst og fremst eru vandræði vegna þess að markaður fyrir fullunna síld er lítill. Mikið framboð er á þessari vöru og verðið ekki nægilega hátt. Kostnaðurinn t.d. við söltun á síld er mikill og þegar um mjög litla er samninga að ræða hugsa menn sig tvisvar um áður en þeir fara í kostnaðarsama framleiðslu á vörunni. Því hefur það gerst sem er alvarlegt mál og þess vegna er frv. lagt fram að við höfum ekki staðið við gerða samninga um sölu á síld. Það er mjög alvarlegt mál fyrir okkur Íslendinga sem erum bæði að berjast fyrir atvinnuleysi og ýmis önnur vandamál að við verðum auðvitað að standa við þá samninga sem gerðir hafa verið.
    Ég vil gjarnan koma öðru á framfæri. Þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var gerður á sínum tíma náðust ekki viðunandi samningar varðandi tollfríðindi á síld. T.d. á Þýskalandsmarkaði, þar sem verið er að selja marineraða síld, þá greiðum 14--18% toll af síldinni sem er auðvitað allt of hátt hlutfall. Og ef fer sem horfir að þjóðir í Skandinavíu ganga almennt inn í Evrópusambandið þá stöndum við auðvitað frammi fyrir því að enn þá erfiðara verður fyrir okkur að selja síldina. Þar af leiðandi langar mig til að spyrja hæstv. sjútvrh. að því sérstaklega vegna þess að hann gat um það á fiskiþingi hvað sé að gerast í þessum málum varðandi samninga um tolla á síld í Evrópu vegna þess að hæstv. sjútvrh. gat þess sérstaklega á fiskiþingi, ég hjó eftir því, að það væru góðar fréttir frá Brussel og málin væru í góðum farvegi. En síðan eru ekkert nákvæmari fréttir af því og ég veit að fleiri en ég hafa áhuga á að heyra nákvæmlega hvað þar er að gerast. Það hefur mikið að segja varðandi sölu á þessari afurð hvernig við stöndum varðandi tollana.
    En lykillinn að sölu á síldarafurðum hefur auðvitað verið Sovétríkin eða Rússland. Þegar sá markaður lokaðist okkur um leið og sovéska ríkið hætti að vera með ríkisábyrgð á þessum kaupum treystu einstaklingar sér ekki til að selja til þeirra nú sem eru tilbúnir að kaupa af okkur vegna þess að ábyrgðirnar eru ekki nægar. Þá langar mig líka til að spyrja hæstv. sjútvrh. að því hvort ríkisstjórnin sé að huga að því að auka möguleika Íslendinga til að selja til Rússlands t.d. með því að ábyrgjast söluna.
    Svo langar mig til að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann sé sammála ummælum hæstv. forsrh. í umræðum utan dagskrár 10. okt. þegar síldina bar á góma. Mér fannst koma fram í ummælum hæstv. forsrh. að hann hefði ekki mikla trú á því að þessi atvinnugrein gæti skapað okkur það sem ég hef trú á að hún geti skapað okkur. Mér þætti fróðlegt að heyra hvort hæstv. sjútvrh. er sammála ummælum hæstv. forsrh. en þau voru svo, með leyfi forseta:
    ,,Það er mikið talað um síldina og þetta er orðið stórmál í heilmörgum fréttatímum. Ef allt færi á versta veg með síldina, þá eru það hagsmunir upp á 34 millj. kr. En það eru engar líkur á að allt fari á hinn versta veg með síldina. Þvert á móti standa allar líkur til þess að það mál sem verði leyst en við fáum ekki úr því skorið endanlega fyrr en í formlegum viðræðum sem hefjast ekki fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðslurnar í Skandinavíulöndunum.``

    Mér finnst þegar hann talar um 34 millj., að ekki skipti meira máli en að þetta séu eitthvað 34 millj. af eða á, sé hann ekki að hugsa um þau miklu margfeldisáhrif sem atvinna af síldarverkun til manneldis getur haft. Mig langar að vita hvort hæstv. sjútvrh. hefur bundið sig við þessa tölu.
    Gamlir síldarspekúlantar eru að láta sig dreyma um það að norsk-íslenski síldarstofninn sé að ganga hingað aftur á heimaslóðir. Stofninn hefur ekki sést síðan 1967. Vorgotssíld úr norsk-íslenska síldarstofninum byggði upp þetta velferðarkerfi sem við búum við í dag og það breytti mjög miklu ef það væri raunin að síldarstofninn væri að ganga austur. Hann hefur fundist í svokallaðri síldarsmugu á gráa svæðinu milli Íslands og Noregs. En það er líka fagnaðarefni að sú síld úr íslenska sumargotsstofninum, sem hefur verið að veiðast, er feit og góð til vinnslu.
    Í fskj. með frv. er áfangaskýrsla frá nefnd sem hæstv. sjútvrh. skipaði og Halldór Ásgrímsson veitti forustu. Í skýrslunni eru gerðar tillögur um aukna nýtingu síldar til manneldis, nýta betur þá möguleika sem felast í atvinnu- og gjaldeyrissköpun varðandi síld.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég er sammála því sem kom fram í máli hæstv. sjútvrh. Þetta mál hlýtur að hafa hraða framgöngu í gegnum þingið. Þetta er mál sem menn geta verið sammála um þannig að ég býst við því að það stoppi hvergi í kerfinu.