Takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 14:20:26 (799)

[14:20]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. þá forustu sem hann hefur tekið í því að leggja fram þetta frv. sem ég held að sé mjög mikilvægt. Þetta er atvinnuskapandi frv. og ég vona að þegar hæstv. ráðherra hefur fengið þá heimild er væntanleg lög munu veita honum til þess að grípa inn í vinnsluaðferðir muni það geta leitt til góðs í sambandi við að stærri hluti af síldinni, sem berst í land, fari til vinnslu í landi en ekki bræðslu.
    Ég minni einnig á að sl. vor samþykkti hið háa Alþingi þáltill. er laut að þessu máli og sú þáltill. kvað einnig á um það að endurskoða bæri lög um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar í þeim tilgangi að efla markaðsöflun fyrir síldarafurðir. Það kemur fram í greinargerð með frv. að nefndin hafi skipt starfinu í tvo þætti og muni taka síðari hluta ályktunarinnar til athugunar nú fljótlega.
    Það er alveg ljóst að síldarvinnslan skiptir afar miklu máli fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni. Ég þekki það mjög vel úr mínu kjördæmi að síldarvinnsla sem stendur víða sem hæst núna um þessar mundir og kemur sem mjög kærkomin búbót við atvinnulífið og setur undir það traustari skorður og skiptir mjög miklu máli fyrir afkomu heimilanna líka. Þess vegna var það mjög mikið áhyggjuefni hvernig síldarvinnslumálin voru að þróast þegar alltaf stærri og stærri hluti af síldinni fór til bræðslu en minni hlutinn í vinnslu í landi. Nú grípur hv. Alþingi inn í og veitir hæstv. ráðherra heimild til þess að hafa áhrif á þróunina og er það vel.
    Það er rétt sem hér hefur einnig komið fram að það er áhyggjuefni að á síðustu vertíð tókst ekki að vinna upp í samninga um síld þrátt fyrir að í upphafi vertíðar hefðu menn áhyggjur af að erfiðlega gengi að selja síldina og að markaðarnir væru svo veikir að ekki tækist að semja um þá síld sem söltuð yrði. En þegar upp var staðið höfðum við samninga en ekki nægjanlega síld upp í þá samninga. Ef við hefðum haft lög eins og frv. gerir ráð fyrir er nokkuð víst að hæstv. ráðherra hefði getað gripið fyrr inn í framvinduna og tryggt að nægjanlegt magn af síld hefði borist til söltunar svo að tekist hefði að uppfylla þá samninga sem gerðir höfðu verið. Þess vegna er mjög brýnt að afgreiðslu þessa máls verði hraðað eins og kostur er í þinginu. Tíminn líður og það er komið fram á miðja haustvertíð og þess vegna er mjög brýnt að þingið hafi hraðar hendur. Ég á sæti í hv. sjútvn. og mun leggja mitt af mörkum til þess að þetta verk megi vinna fljótt og vel svo að hinu háa Alþingi megi takast að afgreiða þetta frv. eins fljótt og mögulegt er.