Takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 14:25:12 (800)

[14:25]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því að þingmál af þessu tagi skuli vera komið fram þó að ég verði að viðurkenna að mér finnist ekki vera mikið í því sem hægt er að átta sig á hvernig hæstv. ráðherra ætlar að taka á málinu. Þarna er eingöngu um að ræða lagaheimildir til handa hæstv. ráðherra að gefa út reglugerðir en engar vísbendingar um það með hvaða hætti þeim verði beitt. Það eru heldur ekki neinar vísbendingar, og það kom heldur ekki fram í ræðu hæstv. ráðherra, hvaða aðrar ráðstafanir væri verið að skoða til þess að gera það sem hv. Alþingi samþykkti með þál. á sl. vori til þess að koma betri skipan og ná betri nýtingu á þessari auðlind sem liggur í því að nýta síldarstofnana.
    Sú nefnd, sem hæstv. ráðherra skipaði ekki fyrr en í september, hefur að sjálfsögðu skilað af sér á eðlilegum tíma. Ég tel að kannski hafi verið full ástæða til þess að skipa þessa nefnd fyrr þannig að hún gæti skilað fyrr af sér og hæstv. ráðherra og ráðuneytið hefðu þá kannski verið tilbúnir með meira en bara tillöguna um að ráðherrann megi gefa út reglugerð. En þetta var afrakstur af umræðum og meðferð þessara mála í þinginu á sl. vetri. Það komu fram tvær þáltill. Önnur var um nýtingu síldarstofna sem ég flutti

ásamt tveimur öðrum hv. þm. og auk þess þáltill. um endurskoðun á lögunum um síldarútvegsnefnd sem hv. 5. þm. Austurl. hafði forustu um að flytja.
    Mér hefði þótt það við hæfi að þess hefði verið einhvers getið í þessu plaggi, sem hér er lagt fram, hver forsaga málsins var en það er önnur saga og skiptir kannski ekki máli í þessu sambandi. En mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann hyggist gera í þeim öðrum málum sem rædd voru og komu fram bæði í þáltill. og í áfangaskýrslu nefndarinnar, þ.e. um sölumálin og viðskiptin við þau lönd sem við höfum verið að selja síld til á undanförnum árum. Þar hefur verið að skapast meiri óvissa en hefur verið undanfarið. Ef Svíþjóð og Finnland gerast aðilar að ESB þarf auðvitað að semja um þessi mál upp á nýtt. Ekki tókst að semja um eðlilegan aðgang að mörkuðum í Evrópu í samningum um hið Evrópska efnahagssvæði. Nú eru þessir viðskiptaaðilar okkar hugsanlega á leiðinni inn í það samband og við hljótum að gera kröfu um það að menn einhendi sér í að reyna að fá samninga um þessi viðskipti við Rússa.
    Ég vil minna á það að hv. 3. þm. Reykv. lagði til í umræðum um þá þáltill., sem við bárum hér fram í fyrravetur, að komið yrði á einhvers konar starfi í Eystrasaltslöndunum til þess að reyna að auka sölu á síld þangað. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra, hvað er að gerast í þessum hlutum. Er hann að vinna eitthvað eða láta vinna eitthvað í þessum málum eða hver á að hafa það á hendi? Ég tel að alls ekki sé verið að gera nema lítinn hluta af því sem hér var rætt um og þingið var greinilega sammála um að þyrfti að gera. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra t.d. hvað verður gert núna þegar fullvinnsluskip óska eftir því að fá að vinna síld úti á sjó. Mun það verða leyft? Hverju ætlar hæstv. ráðherra að svara mönnum sem kannski hugsanlega vilja hafa viðskipti við Rússa á miðunum? Verður það leyft að þeir fái að kaupa síld beint á miðunum? Hefur eitthvað gerst í því máli sem við vitum að hefur verið rætt við Rússa áður? Allt þetta hefði verið fróðlegt að hæstv. ráðherra færi betur yfir.
    Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að útskýra hvernig hann ætlar að standa að þessum takmörkunum. Ég hef þá skoðun að það eigi ekki að standa að þeim með þeim hætti sem mér sýnist að sé verið að setja fram með þessari tilurð málsins. Ég tel nefnilega að það eigi að gefa veiðar til manneldis frjálsar og síðan eigi að draga frá kvótum sem notaðir eru í bræðslu það sem nýtt er til manneldis. Því mætti svo sem koma á á einu ári með því að skerða kvótana til bræðslu dálítið verulega í upphafi vertíðar, gefa veiðarnar frjálsar til manneldisvinnslu og taka síðan tillit til þess hvernig dæmið hefði komið út þegar liði á vertíðina. Menn gætu þá í framhaldinu haft það þannig að sá kvóti sem væri notaður til manneldis yrði dreginn frá heildarkvóta næsta árs þannig að ævinlega væri hægt að veiða það magn sem menn ætluðust til að væri tekið úr sjónum en þó væri þessi manneldiskvóti frjáls. Ég hef enga trú á því að menn þurfi að óttast að það verði farið fram úr heildarkvótanum þó megi nýta það til manneldis sem hægt er að koma í vinnslu.
    Ég hefði talið miklu eðlilegra að standa með einhverjum slíkum hætti að málinu. Ég tel nefnilega að það sé fleira en bara það að síldin hafi dýpkað á sér sem hafi orðið til þess að kvótarnir hafi farið af bátunum yfir á loðnuskipin. Ef ég man rétt þá var ekki nema u.þ.b. 17% af kvótanum fyrir tveimur, þremur árum á loðnuskipunum. Allt hitt var á bátaflotanum. En á síðustu vertíð skilst mér að loðnuflotinn hafi veitt að meginhluta til alla síldina. Þetta var bókstaflega allt framselt til loðnuskipanna.
    Það er kannski ástæða til að gera athugasemd við það sem hæstv. ráðherra sagði að hann teldi að best væri að þetta gerðist með frjálsum viðskiptum milli aðila. Það er kannski ekki ástæða til þess að gera sér miklar vonir um að það gerist á meðan málin standa þannig að sjómennirnir t.d. fá ekki nema 10 aurum eða svo hærra verð fyrir þá síld sem fer til vinnslu og þurfa auk þess að leggja á sig miklu meiri vinnu við þá síld við að setja hana í kör og koma henni þannig fyrir að hún geymist á siglingu en þá síld sem veidd er í bræðslu. Það eru augljósir hagsmunir síldarsjómanna á loðnuskipunum að fá að taka þessa síldarveiði á sem skemmstum tíma í sem fæstum förmum til þess að geta nýtt tímann í það að veiða loðnu eða vera á öðrum veiðum.
    Það þarf að stjórna þessum málum og það verða menn að horfast í augu við. Ég býst við að mega af því ráða að þó skuli vera komið fram þetta frv. að menn séu núna búnir að viðurkenna það þó kannski hafi mátt skilja það öðruvísi fyrir ári síðan a.m.k. Ef ég man rétt sagði hæstv. ráðherra þá að best væri að koma þessum málum þannig fyrir að hagsmunaaðilarnir sjálfir réðu þeim málum að mestu. En því miður er það þannig að skammtímahagsmunir ráða ævinlega meiru en við vildum að þeir gerðu og þess vegna hafa málin farið í þennan farveg.
    Mig langar til þess að biðja ráðherra að láta það koma fram í máli sínu hvort hann ætlar að nota aðferðir sem síldarútvegsnefnd hafði t.d. nefnt sem möguleika, þ.e. takmarka framsalið á aflahlutdeildinni frá bátum til loðnuskipa, og einnig hvort það sé í bígerð að gera kröfur um sérútbúnað til kælingar á aflanum í þeim skipum sem ætla að veiða síld til manneldis.
    Ég tek undir það og er sannfærður um að þetta mál mun fá skjótan framgang í sjútvn. Þótt ég sjái ekki fyrir mér að þetta séu endilega bestu aðferðirnar til þess að taka á þessum málum þá eru þetta þó aðferðir sem ég geri ráð fyrir að hægt sé að nota og hafa sama tilgang og ég tel að hafi verið ætlun Alþingis með sinni þál. í fyrra. Ég fagna þess vegna þessu máli og mun vinna að því að það gangi sem hraðast fyrir sig að afgreiða það úr sjútvn.