Takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 15:13:52 (808)

[15:13]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þm. sem hér hafa talað fyrir stuðning við efni frv. og fyrirheit um að greiða fyrir framgangi þess því eins og fram hefur komið þá er síldarvertíðin þegar hafin og á miklu veltur að þær heimildir sem hér er verið að fjalla um verði lögfestar sem fyrst þannig að þær geti haft áhrif í þá veru sem að er stefnt.
    Vegna þeirra fyrirspurna sem hér hafa komið fram vil ég fyrst víkja að því sem fram kom hjá hv. 2. þm. Vesturl. en hann spurðist fyrir um hver væri staða samninga við Evrópusambandið vegna tolla á síld. Reyndar koma sama spurning fram hjá flestum öðrum þeim hv. þm. sem hér hafa talað. En eins og kunnugt er þá breytast aðstæður nokkuð í þessu efni við væntanlega inngöngu annarra Norðurlanda í Evrópusambandið um næstu áramót. Í Svíþjóð og Finnlandi eru mjög mikilvægir markaðir fyrir saltsíld og þegar þessar þjóðir ganga í Evrópusambandið leggjast tollar á þessa síld, en hún hefur fram til þessa verið háð fríverslunarákvæðum EFTA-samningsins. Um þetta atriði vil ég segja þetta: Það hefur verið unnið í þessu máli af hálfu okkar embættismanna í Brussel. Aðstæður eru nokkuð misjafnar vegna þess að markaðirnir eru ólíkir í Svíþjóð og Finnlandi. Til Finnlands höfum við fyrst og fremst selt heilsaltaða og hausskorna síld. Í þeirri athugun sem fram hefur farið af hálfu okkar embættismanna í samtölum við embættismenn Evrópusambandsins hefur m.a. komið til skoðunar hvort unnt væri innan núgildandi samninga að skilgreina edikverkaða síld á þann veg að hún félli undir samningana. Ef það tekst þá má búast við því og fari svo að sú síld sem við höfum verið að selja til Svíþjóðar falli undir þá samninga sem við höfum gert við Evrópusambandið þá leysist það mál. Hitt kann að vera öllu snúnara varðandi heilsaltaða og hausskorna síld eins og við höfum selt hana til Finnlands. En í ljósi þessa þá tel ég að það séu nokkuð góðar vonir um að það takist að koma málum fyrir á þann veg að markaðsaðgangur okkar versni ekki, a.m.k. ekki til muna þrátt fyrir inngöngu þessara ríkja í Evrópusambandið.
    Þegar ríki ganga í Evrópusambandið þá eru þau svipt fullveldi til þess að gera viðskiptasamninga við öllur ríki og þess vegna falla fríverslunarsamningarnir sem EFTA-þjóðirnar gerðu sín á milli úr gildi.
    Á hinn bóginn eigum við auðvitað siðferðilega kröfu á hendur Evrópusambandinu, að markaðsaðstaða okkar versni ekki þó þessi ríki gangi í Evrópusambandið. Það er höfuðmarkmið Evrópusambandsins að koma á frjálsum viðskiptum og það væri því beinlínis í mótsögn við tilgang sambandsins ef aðild nýrra ríkja veikti markaðsstöðu okkar sem höfum gert bæði fríverslunarsamninga og síðan samninginn um Evrópska efnahagssvæðið við Evrópusambandið. Þó við eigum ekki lagalegar kröfur á sjálfkrafa breytingum í þessu efni eru siðferðilegar kröfur okkar mjög skýrar og ég bind vonir við að þau samtöl sem þegar hafa átt sér stað muni skila árangri í þessu efni. En eins og fram kom hjá hv. 2. þm. Austurl. þá er Evrópusambandið ekki tilbúið til formlegra viðræðna um breytta stöðu Íslands fyrr en að afloknum þjóðaratkvæðagreiðslum í þeim ríkjum sem nú eru að sækja um aðild og hljóta allir að gera sér grein fyrir því að það er eðlileg afstaða af hálfu Evrópusambandsins, fyrr verður ekki ljóst með hvaða hætti eðlilegt er að bregðast við.
    Hv. 2. þm. Vesturl. spurði síðan einnig um það hvort til stæði að gera ráðstafanir til þess að ábyrgjast útflutning með einhverjum hætti. Ég hygg að þar eigi hv. þm. einkum við þá söluerfiðleika sem við mætum á Rússlandsmarkaðnum. Það er svo að að minni tillögu samþykkti ríkisstjórnin fyrir skömmu

að nýta þær heimildir sem eru fyrir hendi varðandi útflutningstryggingar og það sem er óráðstafað af þeim samkvæmt gildandi lögum og nú er unnið að útfærslu á tillögum þar að lútandi. En ég vænti þess að þessi ákvörðun muni geta greitt fyrir því að við getum viðhaldið markaði okkar í Rússlandi. Ég held að það sé ótvírætt að þar er stór markaður og þegar betra jafnvægi er komið á innanlandsmál í Rússlandi þá er mikilvægt fyrir okkur að hafa haldið fótfestu okkar á þeim markaði.
    Hv. 3. þm. Vesturl. spurði um það hver væri staða annarra þeirra atriða sem fram koma í nál. Ég hef hér að því er varðar markaðsmálin getið þess að það er þegar verið að vinna að því að fá lausn á tollamálum okkar gagnvart Evrópusambandinu vegna inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í Evrópusambandið. Ég hef þegar greint frá því að það hefur verið ákveðið að nota þær heimildir til útflutningstrygginga sem fyrir hendi eru til þess að greiða fyrir áframhaldandi sölu á Rússlandsmarkaðinn og tryggja stöðu okkar á þeim markaði. Að því er varðar þessi tvö höfuðatriði í markaðskaflanum hafa þegar verið teknar ákvarðanir í þeim efnum og unnið að því í samræmi við álitið. Varðandi samráðsnefndina þá hefur henni þegar verið komið á fót og ég hef átt, varðandi annan lið tillagnanna um tæknibúnað skipanna, viðræður við formann Fiskveiðasjóðs um það með hvaða hætti sjóðurinn gæti aðstoðað við þessar nauðsynlegu breytingar á skipunum. Ég minni á í því sambandi að fyrir forgöngu sjútvrn. voru gerðar breytingar á útlánareglum Fiskveiðasjóðs þannig að nokkuð rýmri lánskjör eru til þeirra sem setja skip til meiri háttar viðhalds og viðgerða innan lands og verkefni af þessu tagi eiga að geta fallið undir þá skilgreiningu. Síðan er þetta frv., sem var fyrsti liður tillagnanna, nú lagt hér fram á þinginu.
    Hv. þm. spurði hvernig unnið væri að sölu til Rússlands. Þar hefur síldarútvegsnefnd vitaskuld haft forustu og unnið mjög gott starf að því að reyna að ná þar fótfestu á nýjan leik og ég vænti þess að ákvörðun um að hagnýta ónýttar heimildir til útflutningstryggina hjálpi til í því efni.
    Hv. þm. spurði svo um það hvað liði hugmyndum um sölu á síld yfir borðstokk til Rússlands. Sú spurning kom einnig fram hjá hv. 4. þm. Vesturl. Um það er þetta að segja að í september á síðasta ári, í viðræðum við sjávarútvegsráðherra Rússlands, setti ég fram það sjónarmið að við gætum verið til viðtals um það að selja síld og loðnu yfir borðstokk ef það gæti verið þáttur í samningum um veiðiheimildir okkur til handa á þorski í Barentshafinu. Við þessu fengust ekki viðbrögð þá og þvert á móti var frekari umræðum hafnað meðan við stunduðum veiðar í Smugunni. En af okkar hálfu þá hefur þetta verið ítrekað og skilaboð þar að lútandi flutt til sjávarútvegsráðsins í Rússlandi. Ég vænti þess að sá tími komi að menn geti tekið upp viðræður á þessum grundvelli, þó að stjórnvöld í Rússlandi hafi hafnað því fram til þessa.
    Hv. 3. þm. Vesturl. spurði síðan um það hvernig tekið yrði í umsóknir um vinnslu á síld úti á sjó. Að tillögum Hafrannsóknastofnunar hefur verið ákveðið að veita takmörkuðum fjölda skipa leyfi til vinnslu úti á sjó í tilraunaskyni. Hv. þm. spurði svo hvernig stæði til að nota þær heimildir sem í frv. felast. Það kemur skýrt fram í 1. gr. frv. með hvaða hætti heimildirnar verða notaðar, en að öðru leyti verður að gera það í samráði við aðila og í ljósi aðstæðna á hverjum tíma og því er sett hér fram tillaga að rammalöggjöf, að útilokað er að segja fyrir um það í einu og öllu hvernig heimildirnar verða nýttar. Það getur verið breytilegt frá einum tíma til annars.
    Ég held að ég fari ekki mörgum orðum um þær vangaveltur sem hér hafa komið fram í umræðunni, hvers vegna síld hefur í vaxandi mæli farið til mjölvinnslu. Meginástæðan er auðvitað fólgin í því að markaðurinn hefur gefið allt of lágt verð fyrir síld sem unnin hefur verið til manneldis. Við væntum þess á hinn bóginn að ef tekst að ná fótfestu á Rússlandsmarkaðnum þá aukist þessi markaður og styrkist á nýjan leik. Ég hef líka trú á því að það verði hægt að auka markað fyrir frysta síld og starfsemi sölusamtakanna á undanförnum árum hefur sýnt að við getum í vaxandi mæli vænst þess að selja frysta síld.
    Varðandi spurningu hv. 9. þm. Reykn. um störf þeirrar nefndar sem skipuð var til þess að meta umgengni um auðlindir og gera tillögur til úrbóta, vil ég aðeins segja það að ég óskaði eftir því með bréfi í síðasta mánuði að nefndin hraðaði störfum sínum og ég á von á því að innan mjög skamms tíma liggi tillögur nefndarinnar fyrir.
    Ég vil svo ítreka þakklæti mitt til þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað fyrir jákvæðar undirtektir við frv.