Takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 15:32:31 (812)

[15:32]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Tímans vegna lét ég hjá líða að víkja að þessum útúrsnúningum hv. 2. þm. Vesturl. Það er að sönnu rétt að þær tollgreiðslur sem þarna eru í húfi eru um 34 millj. kr. og ég geri ráð fyrir því að við getum verið um það sammála að frá þjóðhagslegu sjónarmiði er það ekki stór upphæð en það er óumdeilt og ég hef ekki heyrt nokkurn mann lýsa ágreiningi um það að síldveiðar og vinnsla á síld er þjóðarbúskap okkar mjög mikilvæg. Skiptir sköpum í atvinnumálum í fjölmörgum sjávarplássum í landinu þannig að þó að tollgreiðslur að óbreyttu vegna útflutnings síldar til þessara tveggja landa séu ekki hærri upphæð en þessi þá eru auðvitað mikilvægir hagsmunir í húfi. Menn geta ekki ruglað því saman hvort verið er að bera þær tölur saman við heildarþjóðhagsreikninga eða þær þjóðhagslegu stærðir sem bundnar eru við síldveiðarnar og síldarvinnsluna. Um það held ég að þurfi ekki að vera mikill ágreiningur milli hvorki okkar né annarra og ég hef satt best að segja ekki hitt nokkurn mann lýsa því yfir að síldveiðar og vinnsla á síld hafi ekki mikla þjóðhagslega þýðingu og atvinnuþýðingu fyrir fjölda sjávarplássa í landinu.