Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 14:00:14 (837)

[14:00]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Við getum trúlega ekki sæst á það að lifa við stjórnarskrárbrot. En við getum sæst á það að vera ekki alveg sammála um það hvort um stjórnarskrárbrot er að ræða eða ekki. Ég átta mig ekki alveg á því hvert hv. þm. er að fara. Við erum vanir því í Framsfl. ef við lendum í erfiðum málum að við leysum þau þrátt fyrir það að við séum ekki alltaf sammála. Við höfum gert það þegar við höfum verið í ríkisstjórn á hverjum tíma, þá höfum við leyst þau erfiðu verkefni sem við höfum tekist á við og við munum halda áfram að gera það. En til þess að komast að niðurstöðu er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hafa umræður um mál. Þær eru og verða innan Framsfl. og ég vænti að slíkar umræður verði jafnframt í öðrum flokkum og menn skammist sín ekkert fyrir það í Sjálfstfl. að vera einstaka sinnum ósammála um eitthvað. Það er alveg nýtt fyrir mér.