Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 14:51:35 (845)


[14:51]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans í þessari umræðu og vissulega væri tilefni til þess að ræða málin vítt og breitt, en ég hafði hugsað mér að einskorða mitt mál eingöngu við umfjöllunina og spurninguna um það hvort ástæða sé til fyrir ríkisstjórn Íslands að endurskoða afstöðu sína til inngöngu Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðið.
    Í skýrslu hæstv. ráðherra er komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé fyrir okkur við þessar aðstæður vegna tiltekinna breytinga sem orðið hefðu í áherslum Alþjóðahvalveiðiráðsins að endurskoða afstöðu okkar og æskja að nýju inngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið með þeim fyrirvara að við samþykkjum ekki hvalveiðibannið frá árinu 1982. Hér verð ég að játa að ég er algerlega ósammála hæstv. ráðherra. Ég er algerlega ósammála mati hæstv. ráðherra á því að þetta geti verið skynsamlegt sem liður í því að við hefjum að nýju hvalveiðar. Ég tel raunar að umræða af þessu tagi, stöðugar umræður um það að við ættum að fara núna vegna einhverra mjög óljósra breytinga sem orðið hefðu á starfsháttum Alþjóðahvalveiðiráðsins, að sækja um inngöngu, verði til þess fyrst og fremst að drepa málinu á dreif og tefja fyrir því sem er aðalatriði þessa máls, þ.e. að við hefjum hvalveiðar að nýju.
    Þegar við á sínum tíma tókum ákvörðun um það að segja okkur úr Alþjóðahvalhveiðiráðinu þá var það gert að mjög gefnu tilefni. Við höfðum komist að þeirri niðurstöðu eftir áralanga reynslu að það var hvorki tauti né rauli komið við Alþjóðahvalveiðiráðið, það var ekkert hægt að ræða þar mál efnislega á neinum rökrænum eða vísindalegum grundvelli vegna þess að talsmenn Alþjóðahvalveiðiráðsins og ráðandi öfl innan Alþjóðahvalveiðiráðsins höfnuðu því einfaldlega að taka þannig á málum þannig að það skipti engu máli fyrir okkur Íslendinga í starfi okkar innan Alþjóðahvalveiðiráðsins, hvort við legðum fram skynsamlegar hugmyndir, vel rökstuddar hugmyndir. Á þær var einfaldlega ekki hlustað vegna þess að menn voru haldnir þar þeirri trú að það mætti ekki hefja hvalveiðar að nýju. Þetta byggðist ekki á neinum vísindalegum grunni, þetta byggðist einfaldlega á tilfinningalegum grunni, ákaflega illa rökstuddum og þess vegna komumst við aldrei lönd né strönd með þetta mál innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þetta mál var orðið fullreynt þegar við ákváðum það síðan að ganga úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og ég tel að það hafi verið skynsamlegt og gott hjá okkur Íslendingum að gera það og það skapaði okkur nýja viðspyrnu, nýja möguleika til þess að geta hafið hvalveiðar að nýju.
    Sannleikurinn er sá að þrátt fyrir að einhverjar litlar áherslubreytingar eigi sér stað innan Alþjóðahvalveiðiráðsins þá eru engar grundvallarbreytingar að gerast á starfssviði ráðsins. Ég vek athygli á því t.d. að forseti Sjómannasambands Íslands, sem var annar tveggja Íslendinga sem sátu síðasta ársfund Alþjóðahvalveiðiráðsins, segir það einfaldlega, að engar breytingar sem áður skipti hafi átt sér þar stað og hann segir í Tímanum 27. maí sl., með leyfi forseta:
    ,,Þetta er sama bla bla bla og verið hefur og ef eitthvað er, þá er þetta verra en það hefur verið undanfarin ár.``
    Ég held því að þegar grannt er skoðað þá sé það ákaflega mikil óskhyggja svo að ekki sé meira sagt ef við ímyndum okkur að eitthvað sé það komið á daginn í dag sem bendi til þess að það séu að verða þær grundvallarbreytingar á starfsháttum Alþjóðahvalveiðiráðsins að það réttlæti það að við förum að hyggja að inngöngu nú að nýju.
    Ég vil líka vekja athygli á því að í mjög greinargóðri skýrslu til sjútvrh. frá nefnd sem skipuð var fulltrúum allra þingflokkanna sem áttu að gera tillögur um stefnu Íslendinga í hvalamálum þá er vitnað til

erindis sem framkvæmdastjóri Alþjóðahvalveiðiráðsins, dr. Ray Gambell, flutti á fundi Evrópuráðsins í Strassborg í júlí 1993. Þar segir svo í frásögn skýrslunnar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í máli hans kom m.a. fram að meiri hluti ráðsins`` þ.e. Alþjóðahvalveiðiráðsins ,,virtist þeirrar skoðunar að hvalir væru ekki auðlind sem mætti nýta með veiðum. Taldi framkvæmdastjórinn að þetta gilti óháð því hvort menn teldu hvalastofna þola takmarkaðar veiðar, hvort unnt reyndist að halda skilvirku eftirliti með veiðunum eða hvort skráning upplýsinga væri tryggð.``
    Þetta sýnist mér allt saman benda til þess að það sé til einskis fyrir okkur Íslendinga að ganga inn í Alþjóðahvalveiðiráðið að nýju undir þessum formerkjum. Ég hef alltaf sagt það að út af fyrir sig ef aðstæður breytast og við teljum það skynsamlegt og við getum náð þarna árangri og hægt sé að eiga þarna einhverjar rökrænar viðræður við aðila innan Alþjóðahvalveiðiráðsins þá er auðvitað athugandi fyrir okkur að ganga þarna inn að nýju. En það er ekkert slíkt því miður sem hefur gerst sem gerir það að verkum að við getum leyft okkur þann hringlanda sem í því mundi felast að fara að rjúka inn í Alþjóðahvalveiðiráðið núna. Ég bendi líka á að það er niðurstaða þessarar nefndar sem allir þingflokkarnir áttu sæti í, það er sameiginleg niðurstaða nefndarinnar að það sé ekki skynsamlegt fyrir okkur að æskja inngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið að nýju. Þess vegna segi ég það að báðar þær nefndir sem íslensk stjórnvöld hafa skipað á undanförnum árum og fjölluðu um þetta mál, endurspegluðu pólitíska litrófið, ræddu við fulltrúa nánast allra hagsmunaaðila og komust báðar að sömu niðurstöðunni. Þess vegna finnst mér það ákaflega sérkennilegt þegar bæði hæstv. ráðherra og raunar formaður utanrmn. Alþingis, hv. 3. þm. Reykv., hafa verið að tala í þá veru að það sé eðlilegt fyrir okkur núna við þessar aðstæður að fara að huga að inngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið að nýju.
    Svo er það líka þessi hugmynd sem hér er verið að viðra í skýrslu hæstv. ráðherra sem gengur út á það að við eigum að fara inn í Alþjóðahvalveiðiráðið með einhverjum fyrirvara, að við samþykkjum ekki hvalveiðibann frá 1982, ég er alls ekki farinn að sjá hvernig þetta mundi nú virka. Ef við færum inn í þetta Alþjóðahvalveiðiráð, hvernig yrði í fyrsta lagi tekið á því að þjóð færi inn í ráðið með einhverjum fyrirvörum. Einhvern veginn hef ég ímyndað mér það að menn færu annaðhvort inn í slíka alþjóðlega stofnun fyrirvaralaust eða ekki og það væri líka fróðlegt að vita í ljósi þess hver geta orðið líkleg viðbrögð þeirra sem andmælt hafa hingað til hugmyndum um hvalveiðar, ef Íslendingar hygðust sækja um inngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið að nýju undir formerkjum einhverra fyrirvara af þessu taginu.
    Það er líka þannig að það er mjög vandséð hvaða erindi við gætum átt í hvalveiðiráðið að nýju án þess að það lægju fyrir tryggingar um það að það væri ætlunin að heimila veiðar á hvölum í atvinnuskyni. Ég sé ekki með nokkru móti hver geti orðið hugsanlegur ávinningur okkar í ljósi þess sem ég hef verið að segja hér áðan um starfshætti Alþjóðahvalveiðiráðsins, ég sé ekki þann ávinning sem við gætum haft af því að fara þarna inn gersamlega án nokkurra trygginga um það að veiðar í atvinnuskyni yrðu heimilaðar að nýju. Það liggur fyrir að það varð niðurstaða á þessum ársfundi sem sumir ætla nú að hafi markað einhver tímamót, það var samt niðurstaða þessa ársfundar núna í vor að aflétta ekki hvalveiðibanninu. Þess í stað var verið að setja fram fyrirætlanir um sérstakt griðland fyrir hvali í suðurhöfum. Mér finnst því stefnan að sumu leyti einmitt vera í gagnstæða átt við það sem menn hafa látið hér í veðri vaka.
    Að mínu mati mundi innganga okkar í Alþjóðahvalveiðiráðið núna án þeirra breytinga sem nauðsynlegar væru í þeim dúr sem ég var að lýsa hér áðan, án þess að það lægju fyrir einhverjar tryggingar um það að við gætum hafið veiðar að nýju, þá mundi innganga inn í Alþjóðahvalveiðiráðið við þessar aðstæður núna fyrst og fremst gera tvennt. Þær mundu undirstrika tiltekna uppgjöf okkar gagnvart þessari baráttu okkar fyrir því að fá að nýta hvalastofnana og hins vegar yrði þetta örugglega túlkað sem tiltekinn áfangasigur friðunarsinna í baráttunni við okkur.
    Aðalatriðið er þó það að ég held að þessar vangaveltur um að við förum að ganga inn í Alþjóðahvalveiðiráðið núna séu fyrst og fremst því miður til þess fallnar að drepa á dreif því sem ég tel vera aðalatriði þessa máls, þ.e. að við förum að komast að niðurstöðu um og taka ákvörðun um að hefja hvalveiðar að nýju. Það eru öll vísindaleg rök sem mæla með því. Það eru öll rök að sjálfsögðu sem mæla með því að við hefjum hvalveiðar a.m.k. í takmörkuðum mæli eins og lagt er til í skýrslu nefndarinnar, sem gerir tillögur um stefnu Íslendinga í hvalamálum og ég vitnaði til, það er a.m.k. eðlilegt að við hefjum veiðarnar á þeim grundvelli, á grundvelli þessara tillagna skýrslunnar.
    Í þessari skýrslu er líka rökstutt með mjög gildum rökum að það sé hægt að hefja þessar hvalveiðar á grundvelli hafréttarsáttmálans innan vébanda NAMMCO, Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins, og þær efasemdir og þær vangaveltur og þær spurningar sem ég og fleiri settum fram á sínum tíma í skýrslu nefndarinnar sem lá til grundvallar þegar Ísland sagði sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu, þær spurningar sem þá voru settar fram um lögmæti þess að hefja hvalveiðar innan vébanda NAMMCO, þeim spurningum er svarað mjög afdráttarlaust í þessari síðari skýrslu og það rökstutt með ljósum hætti að það sé unnt á grundvelli hafréttarsáttmálans að hefja þessar veiðar innan vébanda NAMMCO. Ég tel þess vegna langeðlilegast að íslensk stjórnvöld haldi áfram þessu starfi í samræmi við þann anda sem fram kemur í þessari skýrslu og menn séu ekki að drepa þessu þýðingarmikla máli á dreif eða tefja það á einhvern hátt með því að vera að ræða um það að við förum aftur inn í þá úreltu stofnun sem Alþjóðahvalveiðiráðið því miður er.