Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 15:09:37 (850)

[15:09]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að í ræðu sinni minntist hæstv. utanrrh. lítið á norræna samvinnu í öðru samhengi heldur en í sambandi við ESB. Þó er norræn samvinna einn af undirstöðuþáttum í utanríkismálum okkar Íslendinga. Við höfum notið norrænnar samvinnu lengi og hún er svo margvísleg að vel hefði mátt gera henni nánari skil. En einhvern veginn er ESB alltaf nálægt í hugsun hæstv. utanrrh. og þess vegna mun þetta hafa farið svo.
    En einmitt nú þegar sumar þessar þjóðir, Norðurlandaþjóðirnar, eru að leita inn í Evrópusambandið þá finna þær hjá sér þörf til að treysta samningana sín á milli. Treysta fyrri gerða samninga og gera jafnvel nýja til þess að reyna að halda við þeirri félagslegu þjónustu og þeim tryggingum sem við eigum við að búa, betri heldur en flestar aðrar þjóðir í heimi. Glöggt dæmi um þetta eru t.d. þær viðræður sem nú eru í gangi og samningar um almannatryggingar og hæstv. utanrrh. þekkir ábyggilega harla vel.
    Á hinn bóginn er það svo að missættið við nágranna okkar í fiskveiðimálum er mál sem ber mjög á góma hjá utanrrh. og er að vonum. Það er að sjálfsögðu óviðunandi ástand að við skulum stunda veiðar á hættuslóðum langt norður í höfum í illdeilum við nágrannaþjóðir okkar. Hagsmuna þjóða hér á norðurhveli er best gætt með samvinnu og samstöðu um að forðast rányrkju og ofveiði. Ég veit ekki til að það sé í gangi nein samvinna um það að finna út hversu mikið má yfirleitt veiða í Smugunni og ég tala nú ekki um á öðrum svæðum þar sem við erum á veiðum þarna norður frá. En það er auðvitað undirstöðumál að vita hversu mikið má veiða þarna. Að vísu er það svo að fiskimenn sem eru að koma norðan úr Smugu núna segja mér að þar sé að vísu lítill fiskur, en hann sé vænn og stór og gamall og þar af leiðandi erum við ekki að ganga á yngstu árgangana. En veiðarnar hafa ekki verið svo góðar að undanförnu heldur.
    Þessi rányrkja okkar og ofveiði og það að við þurfum að varast að stunda slíkt á ekki bara við um þorskinn þarna norður frá heldur ýmsa aðra fiskstofna, svo sem síldina og fleira sem hefur verið rakið í dag og ég ætla ekki að gera að umræðuefni. En við eigum sameiginlegan aðgang að þessum stofnum, við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta um allt norðurhvelið og við verðum að standa saman að því að nýta þetta á eðlilegan og réttlátan hátt. Mér finnst að hæstv. ríkisstjórn ætti að leggja höfuðáherslu á að leysa misklíð og mismunandi meiningar við nágrannaþjóðirnar áður en við förum að viðra okkur meira upp við ESB.
    Um inngöngu Norðurlandanna í ESB er það að segja að efnahagslegar forsendur eru svo ólíkar að þar er ekki saman að jafna á nokkurn hátt. Finnar með 19% atvinnuleysi vilja nú hörfa úr skugga Rússlands í skjól Evrópusambandsins. Eins og við vitum þá byggðu Finnar hér áður utanríkisviðskipti sín mjög á viðskiptum við Rússa, sem nú hafa hrunið og það er því eðlilegt að þeir leiti að einhverjum öðrum til að styðja sig við í viðskiptum sínum og verði þá fyrst hugsað til einhvers annars stórs máttarveldis eins og Evrópubandalagsins. En reynsla annarra þjóða segir okkur ekki það að þeir muni minnka svo mjög atvinnuleysisprósentur sínar, hún muni ekki lækka svo mjög, það hafa aðrar þjóðir Evrópu ekki geta borið um og við getum alveg eins átt von á því að 19% þeirra í Finnlandi haldist, þeir verði að leysa þann vanda sjálfir heima fyrir, en geti ekki treyst því að lausnin komi að vestan.
    Svíar eru iðnaðarþjóð og stórfyrirtæki þar í landi hóta að flytja starfsemi sína til Evrópu ef Svíar gangi ekki inn fyrir múra bandalagsins. Þetta er náttulega hrein hótun og ógnun og hinir auðugu jöfrar eru þar með að leggja sitt á vogarskálina svo að þeir geti auðgast í samskiptum við Evrópu og eru ekki að hugsa um ýmsa aðra þætti í þjóðlífi Svía heldur bara það að fá krónur í kassann.
    Norðmenn eru, a.m.k. enn þá, tilfinningalega háðir og tengdir fiskveiðunum. Þeir eru raunar svo

auðugir með allar olíulindirnar sínar að þeir eru kannski ekki eins fjárhagslega háðir ESB og Svíar. En iðnaðarforstjórar í Noregi hafa nýlega lýst því yfir að Norðmenn mundu missa 100 þús. störf fari þeir ekki inn í ESB. Þetta er tala sem er afskaplega undarleg. Það virðist vera að þeir ímyndi sér það að þeir missi af svo miklu og kannski er það rétt. En við hér á Íslandi höfum gamlar minningar um það þegar við fórum í EFTA. Þá hugsuðu iðnaðarmenn og hinn íslenski iðnaður sér gott til glóðarinnar. En það muna það sjálfsagt margir að þá lagðist iðnaður, a.m.k. ein iðngrein, algerlega í rúst, þ.e. húsgagnaiðnaður Íslendinga. Og ég er ekki viss um nema Norðmenn hafi gleymt þegar þeir fundu út þessi 100 þúsund störf sem þeir héldu að þeir mundu glata ef þeir kæmust ekki inn í ESB, að þeir munu líka, gangi þeir inn í ESB, þurfa að standa frammi fyrir fjölmörgum fyrirtækjum sem fara á hausinn í Noregi.
    Íslendingar eru svo háðir fiskveiðum að þeir geta ekki léð máls á inngöngu í ESB. Landbúnaður okkar er líka vanbúinn því að ganga inn í ESB og við getum vel ímyndað okkur hversu mörg störf við mundum missa á öðrum sviðum. Það er því hrein glansmynd sem er dregin stanslaust upp um það að möguleikar okkar verði svo geysilega miklir bara við það að komast inn fyrir þessa múra. Ég vara eindregið við því að þessi einhliða málflutningur sem stundaður er af ríkisfjölmiðlum og hv. þm. Páll Pétursson gerði að umtalsefni hér í dag, verði látinn viðgangast. Það eru furðulegar upplýsingar sem hann gaf, að í ljósvakafjölmiðlum Íslendinga skuli hafa verið rætt um Ísland og ESB hundrað og þrisvar sinnum í júlímánuði. Þar af var bara þrisvar sinnun rætt um neikvæðar hliðar þess en hundrað sinnum um þær jákvæðu. Þetta mundi nú einhver kalla mismunun og reka einhvern út af því.
    Mig langar líka til segja nokkur orð um flóttamannamálin. Því ber að fagna að hæstv. ríkisstjórn er að reyna að sinna málefnum flóttamanna. Flóttamenn eru tvenns konar a.m.k., þ.e. pólitískir flóttamenn sem hafa annan status heldur en venjulegir flóttamenn. Pólitískir flóttamenn njóta nánast mjög mikillar fyrirgreiðslu og fullra réttinda í því landi sem þeir koma til, en aðrir flóttamenn sem koma til landsins hafa miklu erfiðari stöðu. Ég vona að þessi nefnd sem hæstv. utanrrh. nefndi muni fjalla um málefni beggja þessara aðila.
    Pólitísku flóttamennirnir sem koma til Íslands eru örfáir því að þeim er því miður mörgum snúið til baka á landamærunum, þ.e. ekki landamærunum heldur á þeim mærum sem við eigum hér við að búa, á flugvellinum eða í höfninni. Hinir almennu flóttamenn eru þeir sem við aftur á móti fáum þó nokkuð mikið af og við eigum eftir að fá miklu, miklu fleiri inn í landið ef spár Rauða krossins standast. Það þarf að móta miklu, miklu skýrari reglur um móttöku þeirra og þá þjónustu sem þeir eiga að fá og dómsmrn., félmrn. og utanrrn. og raunar kannski flest ráðuneytin þurfa að leggjast á eitt með því að gera reglur skýrar. Ég vil taka það fram að menntmrn. hefur lagt þó nokkuð af mörkum nú þegar við að búa nokkuð í haginn og aðstoða við menntun þeirra sem komið hafa hingað inn sem flóttamenn en það þarf miklu meira, ef það á að duga.
    Staða og ekki síst þekking flóttamanna og annarra þeirra sem hingað hrökklast á stöðu sinni er svo takmörkuð að ég held að það væri rétt fyrir hæstv. ríkisstjórn að íhuga hvort ekki væri ástæða til að stofna hér embætti umboðsmanns flóttamanna og innflyjenda sem mundi starfa í samvinnu við Rauða krossinn og yfirvöld landsins. Það eru afskaplega mörg dæmi þess að fólk hafi staðið hér án þess í rauninni að vita hvert það ætti að snúa sér í eymd sinni og vandræðum, þá hefur auðvitað Rauði krossinn verið það haldreipi sem best hefur dugað, en við höfum ekki gert nóg af því að kynna réttindi sín og eiginlega að leita það uppi vegna þess að þeir felast oft, þessir flóttamenn hér, ekki fyrir það að þeir ætli að fela sig heldur hverfa þeir bara innan um fjöldann og af því að þeir eru flóttamenn og óöruggir um stöðu sína, þá eru þeir ekkert að sýna sig, þá eru þeir frekar í vari heldur en við vitum af þeim. Og þá er líka svo ofsalega auðvelt fyrir þá sem ekki eru of vel gerðir að níðast á þeim, því miður. Þetta er fyrir neðan virðinu Íslendinga og allt of lítið sem gert er í því að rétta hlut þessa fólks og leita það uppi.
    Það eru margir aðrir þættir í þessari skýrslu hæstv. utanrrh. sem ég mundi kannski eiga að nefna. Því hafa aðrir gert rækilega skil og ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri að svo komnu máli.