Staða félagsmálaráðherra

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 15:36:21 (854)

[15:36]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Málshefjandi gerði mér aðvart snemma í morgun um þessa utandagskrárumræðu og

var svo vinsamlegur að senda mér þann texta sem hann gerði hér sérstakar athugasemdir við því að ég hafði ekki séð þennan sérstaka sjónvarpsþátt sem hann gerði að umræðuefni. Ég get tekið undir það að þessi ummæli eins og þau birtast þarna eru óheppileg og það má misskilja þau. En ég hef hins vegar rætt við hæstv. félmrh. og hann hefur fullvissað mig um það að ekki hafi vakað fyrir honum að neinu leyti að hafa í hótunum við bæjarstjórann, sem var með honum í þættinum en hann var að beina því til bæjarstjórans að sínu mati að nú skyldu menn horfa fram á veginn og horfa til þeirra fjölmörgu mála og viðfangsefna sem við var að glíma í framtíðinni fremur en horfa til fortíðar.
    Vegna hins atriðisins sem hv. málshefjandi nefndi, ef til þess kæmi að bæjarstjórn Hafnarfjarðar mundi óska eftir því að félmrn. gerði athugun á einstökum þáttum í rekstri Hafnarfjarðarbæjar, þá geri ég ráð fyrir því að hæstv. félmrh. mundi víkja sæti hvað það atriði varðar og óska eftir því við forsrh. að annar maður, annar ráðherra yrði skipaður sem félmrh. til að taka við þeim þætti sérstaklega. Stjórnskipunarlög sem nú gilda gera ráð fyrir þeirri málsmeðferð.
    Varðandi málið að öðru leyti vil ég segja að það er áríðandi að þegar menn ræða viðkvæm mál eins og þessi, þá greini menn á milli ábyrgðar hæstv. félmrh. sem bæjarstjóra fyrrverandi og sem ráðherra, blandi þeim málum ekki saman. Ég vek athygli á því að sú varð niðurstaða þingflokks Alþfl. að beina því til Ríkisendurskoðunar sem heyrir undir forsætisnefnd að gerð verði sérstök athugun á embættisfærslu ráðherrans. Ríkisendurskoðun féllst á að taka að sér verkefnið og ég tel ekki efni til að fjalla um málið að öðru leyti meðan þeirri endurskoðun er ekki lokið.