Staða félagsmálaráðherra

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 15:41:02 (856)

[15:41]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. félmrh. er yfirmaður sveitarstjórnarmála í landinu. Hans hlutverk er m.a. eftirlitshlutverk með stjórnsýslu þeirra og fjárhag. Sem slíkum hafa honum orðið á svo alvarleg mistök að það krefst svara frá ábyrgðarmanni hans í ríkisstjórn, hæstv. forsrh., hvernig við skuli brugðist. Í fyrsta lagi eru viðbrögðin í því fólgin að ráðherra mætti á blaðamannafundi um úttekt á rekstri Hafnarfjarðarbæjar og bar löggilta endurskoðendur þeim sökum að frá þeim hefði verið pöntuð niðurstaða. Tilvitnuð ummæli við þessa umræðu sýna að málið er komið á svo alvarlegt stig að það er útilokað að hæstv. ráðherra geti haft forustu í viðræðum við sveitarfélögin um þau mörgu og stóru mál sem varða samskipti þessara aðila. Hins vegar eru þau mál öll á ábyrgð hæstv. forsrh. nú þar sem hann hefur tekið fulla ábyrgð á öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar.
    Hvað þarf eiginlega að gerast í þessari hæstv. ríkisstjórn til að það þyki kominn tími til að segja af sér? Ef málefni einstakra ráðherra eru komin bæði til Ríkisendurskoðunar og hugsanlegt að þau fari til Rannsóknarlögreglu ríkisins og það er kominn sérstakur félagsmálaráðherra fyrir Hafnarfjörð, er þá ekki nóg komið? Er þá ekki ráðlegt að fara að hugsa ráð sitt, hæstv. forsrh.?