Staða félagsmálaráðherra

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 15:42:51 (857)

[15:42]
     Ágústa Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Sveitarstjórnarmenn í Hafnarfirði eru í miklum vanda. Þeir standa frammi fyrir því að vafi leikur á því hvort embættisfærslur og fjárreiður varðandi listahátíð í Hafnarfirði árið 1993 séu í fullu samræmi við lög og reglur. Nú er það svo að sveitarstjórnarmenn leita gjarnan til ráðuneytis síns þegar erfið mál koma upp og fá ráðuneytið til að kveða upp úrskurð eða fá ráðleggingar. Nú ber svo við að í ráðuneyti sveitarstjórna situr í stóli ráðherra fyrrv. bæjarstjóri Hafnarfjarðar, sami maðurinn sem bar ábyrgð fjárreiðum bæjarins þegar umrædd listahátíð fór fram. Þetta er auðvitað staða sem ekki gengur upp. Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort sveitarstjórn Hafnarfjarðar geti yfirleitt leitað til þessa ráðuneytis jafnvel þó að félmrh. mundi víkja tímabundið. Það er á ábyrgð hæstv. forsrh. að stýra málum í ríkisstjórninni og ég vil því spyrja hann, þar sem þetta mál og önnur mál tengd hæstv. félmrh. hanga yfir ríkisstjórninni og ráðherrum hennar eins og fallöxi, hvort það sé ekki löngu tímabært að taka á þessum vanda.