Staða félagsmálaráðherra

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 15:49:07 (860)

[15:49]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. kaus að breiða regnhlíf yfir alla ráðherra sína á dögunum þó það hafi legið fyrir að vafi léki á um að sumir þeirra nytu meirihlutafylgis á Alþingi. Þar með neyddi hann þingmenn stjórnarliðsins til að taka ábyrgð á ráðherranum. Með þessum hætti braut hæstv. forsrh. gegn þingræðisreglunni. Ólafur heitinn Jóhannesson segir í bókinni Lög og réttur, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt þingræðisreglunni verða því ekki aðrir skipaðir ráðherrar en þeir sem meiri hluti þings vill styðja eða a.m.k. þola í embætti.``

    Það lá fyrir á mánudaginn var að hér eru ráðherrar sem bæði þing og þjóð þola illa í embætti og finnst að þeir hafi fyrirgert rétti sínum til að fara með ráðherravald. Ég efast ekki um að það er góður drengur sem nú er fjötraður heljarböndum en það stafar af eigin dómgreindarleysi og þessum starfsháttum Alþfl. að hygla flokksgæðingum sínum. Veislan í Hafnarfirði er að snúast upp í harmleik sem gerir hæstv. félmrh., Guðmundi Árna Stefánssyni, erfitt að sitja og vonlaust að fara með málefni sveitarfélaganna í ríkisstjórninni. Það er hneyksli hér á Alþingi að hæstv. forsrh. skuli telja það lausn að hann víki aðeins frá gagnvart Hafnarfirði.
    Ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Hvað ætlar hann að gera þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar kemur? Ég tel víst að Ríkisendurskoðun muni ekki skrifa upp á embættisfærslu hæstv. félmrh. í nokkrum vafasömum atriðum. Svo gerist það nú hér, hæstv. forseti, að þingmenn stjórnarliðsins brjótast undan regnhlífinni og taka að tala gegn ráðherra sem þeir bera ábyrgð á þannig að leikurinn er á ný kominn í gang. Ríkisstjórnin nýtur ekki trausts meiri hluta Alþingis.