Staða félagsmálaráðherra

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 15:51:32 (861)

[15:51]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Það verður að segjast eins og er að staða hæstv. félmrh. versnar eftir því sem dagarnir líða. Það er ekki tækifæri til þess nú að rifja upp störf ráðherrans frá því að hann tók sæti í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar en ég held að það séu flestir því sammála að ferill ráðherrans sé með þeim hætti að það sé löngu kominn tími til þess að hann segi af sér.
    Hér kom félmrh. og sagði að hann hefði ekki meint það sem hann sagði. Ég er með hér fyrir framan mig afrit af því sem hann sagði í þessum sjónvarpsþætti sem ég reyndar sá ekki sjálf. Mér er ómögulegt að lesa þennan texta öðruvísi en að sjá að í honum felist hótun, hótun til bæjaryfirvalda í Hafnarfirði. Því miður er það svo, hæstv. félmrh., að það er ekki hægt að lesa neitt annað út úr þessum texta. Ég frétti af þessum ummælum félmrh. frá fólk sem sagði mér að hann hefði hótað í þessum umrædda þætti. Það voru að vísu Reykvíkingar sem sögðu það en það var fólk sem horfði á þáttinn sem taldi að þarna hefði komið fram hótun. Það hafði ekki lesið þetta, það hlustaði. Það þarf ekki bara okkur til þess að sjá að í þessu felst hótun og það er mjög alvarlegt þegar ráðherra sveitarstjórnarmála hótar bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði því að þau skulu gjalda þess þegar þau fara að lyfta upp lokum á öskutunnunum um leið og þau ganga þar fram hjá. Fnykurinn stendur upp úr. Þetta gengur ekki lengur.