Staða félagsmálaráðherra

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 15:58:23 (864)

[15:58]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil segja í upphafi að ég tel að ég hafi svarað efnislega í upphafi þessarar umræðu því sem til mín var beint um það sem hv. málshefjandi vildi ræða hér. Mig langar hins vegar að nefna sérstaklega það sem hv. 5. þm. Suðurl., Guðni Ágústsson, nefndi um frávísunartillögu á vantrauststillöguna vegna þess að það hefur verið rætt sérstaklega og talað um það að þar væri um sérstakan atburð í þingsögu Íslands og reyndar þingsögu Norðurlandanna að ræða og mér skilst að sá hv. þm. sem nú situr í forsetastóli hafi meira að segja sagt það við einhverja útlendinga að þetta væru forkastanleg vinnubrögð. Þetta er mikið þekkingarleysi sem þarna er á ferðinni. Vantrauststillögur hafa verið fluttar hér við lauslega talningu 27 sinnum frá því að ríkisstjórn varð fjölskipað stjórnvald. Þar af hefur vantrauststillögu verið vísað frá með rökstuddri dagskrá sex sinnum og þetta virðist hv. þm. ekki vita, ekki einu sinni fyrrv. hæstv. forsetar og eru að tala um það við útlendinga með einhverjum furðulegum hætti. Það er áríðandi að menn átti sig á þessu, ekki síst þegar tillagan var eins og hún var úr garði gerð. Þarna var því um mjög svo þinglega meðferð að ræða svo ekki sé nú minna sagt, enda sex fordæmi fyrir því og þó voru þau fordæmi ekki nýtt þegar tillaga var jafnilla úr garði gerð eins og þarna var um að ræða.
    Ég vek hins vegar athygli á því að þegar ríkisstjórn stendur tæpt eins og var í ríkisstjórninni 1980--1983 eða meðan huldumenn áttu að gæta fjöreggs ríkisstjórnar þá var ekki hægt að bera fram þess háttar tillögu því það þarf nefnilega einu atkvæði meira til að vísa tillögu frá heldur en fella vantraust sem hægt er að fella með jöfnum atkvæðum.