Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 16:00:42 (865)

[16:00]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Þróun í samskiptum ríkja nú á síðustu árum hefur beinst í æ ríkara mæli að nánu samstarfi af ýmsum toga, allt frá breiðum viðskiptabandalögum til samstarfs um ákveðin og sértæk hagsmunamál ríkjahópa. Við höfum fylgst með því hvernig ríkjabandalög hafa myndast allt í kringum okkur, Evrópusambandið, Fríverslunarsamtök Norður-Ameríku eða NAFTA, viðskiptasamstarf Suðaustur-Asíuþjóða og smærri svæðisbundin samtök, svo sem Norður-Atlantshafsráðið, Eystrasaltsráðið og Barentsráðið. Einnig má benda á enn smærri hópa ríkja, svo sem samvinnu ríkja er liggja að Karpatafjöllum en þau hafa tekið upp verkefni sem eru sameiginleg íbúum á því svæði og enn fremur samstarf landa í Mið- og Austur-Evrópu sem vinna að uppbyggingu sameiginlegs átaks í vegakerfi.
    Þátttaka Íslands í alþjóðasamstarfi hefur fram að þessu verið landi og þjóð til góðs og nauðsynlegt er að við þróum áfram stefnu okkar í alþjóðasamskiptum, stefnu sem er víðsýn og tekur mið af síbreytilegri heimsmynd. Í dag brennur á okkur sú spurning, hvernig við eigum að hátta samskiptum okkar við Evrópu með EES-samninginn upp á vasann á sama tíma og flestar EFTA-þjóðir hugsa sér til hreyfings inn í Evrópusambandið.
    Mjög skiptar skoðanir hafa verið um framtíðarsamband okkar við ESB og ýmis hörð orð hafa fallið milli manna. Það er mikilvægt að við reynum að ræða þessi mál af víðsýni og fordómaleysi og halda umræðunni á röklegum nótum. Það er áríðandi að við komum í veg fyrir það að stjórnmálaumræða um framtíðarsamskipti við ESB skipti þjóðinni í tvo hatramma, ósveigjanlega hópa líkt og gerðist í umræðunni um aðild að Atlantshafsbandalaginu á sínum tíma.
    Á undanförnum árum hefur skapast meiri samstaða með þjóðinni um helstu stoðir íslenskrar utanríkisstefnu og því er enn brýnna að við höldum Evrópuumræðunni málefnalegri. Það er að mínu mati einnig óþarfi að leggja slíka ofuráherslu á Evrópusamstarfið, að sú umræða yfirgnæfi alla stefnumótum um samskipti við aðrar þjóðir almennt. Við verðum að horfa á heildarhagsmuni okkar til framtíðar og reyna að spá fyrir um hverjar verði megintilhneigingar í alþjóðasamstarfi á komandi áratugum og hvernig við getum tryggt okkar hagsmuni í samræmi við það. Hér ber fyrst að nefna bandamenn okkar í vestri og þau vinsamlegu og víðtæku samskipti sem við höfum átt við þá. Þrátt fyrir dvínandi vægi Bandaríkjamarkaðar á síðustu árum er sá markaður enn mjög mikilvægur fyrir útflutning okkar og tímabært er orðið að við endurskoðun viðskiptasamband okkar við Bandaríkin með það í huga að tengjast hinu nýja Fríverslunarsambandi Norður-Ameríku á einn eða annan hátt.
    Eitt af mörgum álitaatriðum er hvort Ísland geti nýtt sér landfræðilega legu sína og góð tengsl sín bæði til austurs og vesturs með því að gerast einhvers konar milliliður í viðskiptum milli Bandaríkjamarkaðar og Evrópumarkaðar. Sem dæmi um það gerði EES-samningurinn Ísland að mun álitlegri fjárfestingarkosti fyrir Bandaríkjamenn. Í komandi umræðu um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu er nauðsynlegt að hafa þetta í huga og gæta þess vel að Ísland fyrirgeri ekki sínu sérstaka sambandi við Norður-Ameríku. En Íslendingar mega ekki heldur einskorða umræðu um alþjóðamál við viðskiptasamninga. Við með okkar löngu lýðræðishefð eigum að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um lýðræði og mannréttindi. Þar getur Ísland átt mun meira vægi en smæð þjóðarinnar segir til um og Evrópuráðið er einn slíkur vettvangur. Mikilvægi Evrópuráðsins hefur aukist til muna eftir fall kommúnismans í Austur-Evrópu og upplausn Sovétríkjanna.
    Hvað varðar aðild Rússlands að Evrópuráðinu hefur skilgreining á því hvaða lönd tilheyri álfunni verið í brennidepli innan ráðsins. Ekki eru allir sammála um hvort öll svæði Rússlands uppfylli þau skilyrði sem endanlega ákvarða hvað gerir einstök ríki að Evrópuríkjum í menningarlegu, efnahagslegu og lýðræðislegu tilliti. Ríki Austur-Evrópu sækja hins vegar mjög fast á viðurkenningu og inntöku í Evrópuráðið og er grundvöllur viðurkenningarinnar að viðunandi lýðræðishættir séu til staðar í viðkomandi ríki. Orsök þessa áhuga er ekki eingöngu efnahagsleg rök, þó þau vegi afar þungt, heldur ekki síður af öryggislegum toga.
    Það er að nokkru leyti sambærilegt við þau rök sem fram var haldið í umræðu í Finnlandi fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna þar um Evrópusambandsaðild. En ljóst er að eitt af fyrstu skrefunum í formlegu, pólitísku samstarfi Austur-Evrópu við Vestur-Evrópuríkin er veiting aðildar að Evrópuráðinu sem þar með verði lykillinn að lýðræði hins vestræna heims. Eitt mikilvægasta hlutverk Evrópuráðsins verður því að leiðbeina og upplýsa Austur-Evrópuþjóðirnar um framkvæmd lýðræðisins og eðli og jafnframt að hafa eftirlit með þróun innan þessara ríkja. Enn fremur hefur farið fram innan Evrópuráðsins mikil umræða um framkvæmd lýðræðisins í Vestur-Evrópu. Menn hafa einkum áhyggjur af æ veikari tengslum þinganna við umbjóðendur sína, borgana. Jafnframt hefur umræða um áhrif fjölmiðla á gang stjórnmálanna verið í brennidepli. Evrópuráðið hefur á undanförnum árum gengist fyrir tveimur milliþingaráðstefnum um þessi mál og fleiri eru fyrirhugaðar á næstunni.
    Í dag er í vaxandi mæli litið svo á að lýðræði sé undirstaða raunverulegs öryggis í heiminum. Efling lýðræðisins er því í dag hluti af hinu víðtækara öryggishugtaki. Umræða um framkvæmd lýðræðis og eftirlit með því verður að fara fram á öllum stigum alþjóðasamvinnu jafnt í smærri sem stærri samstarfsheildum. Slík markviss vinna er vænlegust til árangurs. Ég tel að við Íslendingar getum gegnt mikilvægu hlutverki í þessu sambandi. Við erum herlaus þjóð með langa lýðræðislega hefð að baki og njótum þess vegna virðingar á alþjóðlegum vettvangi. Með því að leggja áherslu á þátttöku í starfi jafnt svæðisbundinna samtaka svo sem Norðurlandaráðs, Barentsráðs og Eystrasaltsráðs, sem og þátttöku í stærri regnhlífasamtökum, svo sem í Evrópuráði og í starfi Sameinuðu þjóðanna getum við gegnt mjög mikilvægu hlutverk í eflingu öryggis í heiminum í dag.
    Hæstv. forseti. Á næstu árum þurfa Íslendingar að taka margar og veigamiklar ákvarðanir um samband og samstarf sitt við aðrar þjóðir í framtíðinni. Það verður ekki létt verk en það er óhjákvæmilegt og spennandi. Ég vil því ítreka hversu nauðsynlegt það er að stefnumótunarumræðan muni ekki byggjast á flokkadrætti heldur málefnalegum og fordómalausum skoðanaskiptum jafnt hér á Alþingi sem meðal almennings.