Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 16:33:45 (868)

[16:33]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að hæstv. utanrrh. svaraði í engu fyrirspurn minni um leyndarkvöðina á skýrslum háskólans um aðildina að Evrópusambandinu. Hann svaraði í engu spurningunni um hvenær þessari leyndarkvöð yrði létt af og hvers vegna hún hefði verið lögð á þessar skýrslur. Í stað þess kaus ráðherrann að fara hér með frekar ómerkileg ummæli varðandi skoðun mína og samstarfsmanna fyrrverandi á þeim aukna sið í háskólanum að gefa út álitsgerðir fyrir stjórnvöld. Það er ekki nýtt fyrir fyrrum samstarfsmenn mína í háskólanum að heyra þær skoðanir mínar. Ég flutti þær sérstaklega í kveðjuræðu þegar félagsvísindadeild hélt mér kveðjuhóf þegar ég lét af embætti prófessors og lýsti þeirri skoðun minni að það hefði kannski mátt segja það hér fyrr á árum þegar deildin var að taka til starfa að fræðimennirnir hefðu verið í pólitík, að þeir hefðu jafnan passað sig á því að hafa ekki pólitík í fræðunum. Nú sýndist mér hins vegar komið ærið mikið af pólitík í fræðin. Það er því ekkert nýtt fyrir samstarfsmenn mína fyrrverandi í háskólanum að þeir þekki gagnrýnar viðvaranir mínar á því að hættulegt geti verið fyrir háskólann að halda of mikið inn á þessa braut og gera það ávallt í nafni háskólans. Og ég vek athygli ráðherrans á því sem hann kaus að ræða ekki heldur hér að í nýjasta Fréttabréfi háskólans er sett fram mjög harðorð gagnrýni á þessi vinnubrögð og þessar skýrslur af hálfu fyrrum ritstjóra Fréttabréfs Háskóla Íslands.
    En ég ítreka fyrri spurningar mínar til hæstv. ráðherra: Hvers vegna var leyndarkvöð sett á þessar skýrslur og hvers vegna hefur þeirri leyndarkvöð ekki verið létt af?