Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 16:36:18 (869)

[16:36]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess að taka það fram að það var ríkisstjórn Íslands sem með formlegri samþykkt fór þess á leit við fimm stofnanir háskólans að þær gerðu úttekt, samanburð á stöðu Íslands, annars vegar með EFTA-samning í höndunum og hins vegar við aðild, svo að það er ríkisstjórn Íslands sem biður um þetta verk. Í því felst að ríkisstjórn Íslands hefur og hlýtur að hafa samkvæmt því einhverja trú og eitthvert traust á þeim mönnum sem sinna rannsóknum við Háskóla Íslands og heldur þótt mér nú aumt yfirklórið þegar verið var að reyna að draga til braka hrakyrðin sem fram komu hjá hv. þm. áður í garð þeirra starfsmanna.
    Um leyndarkvöðina er það að segja að hún er engin af minni hálfu. Skýrslunum var dreift til ríkisstjórnar eftir því sem þær bárust og því næst til formanns utanrmn. og til utanrmn. og þær hafa borist núna allar nema ein eftir því sem ég er upplýstur um og reyndar var ein í drögum þegar ég vissi seinast til. Í framhaldi af því hefur verið flutt við ríkisstjórnarborðið tillaga um það að ríkisstjórnin tæki næsta skref sem var að skipa nefnd með fulltrúum atvinnulífs og vinnumarkaðar til þess að vinna áfram að málinu. Því er ekki lokið. Það er einfaldasta mál í heimi sem snýr að leyndarkvöð sem varðar fyrst og fremst þá venju að málin eru rædd innan utanrmn. og höfundar skýrslnanna kvaddir þar til umræðu, þá er það utanrmn. að létta af þessari leyndarkvöð.