Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 16:40:06 (871)

[16:40]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Varðandi leyndardóminn sem verið hefur á skýrslum háskólans og hér var gerður að umræðuefni nú rétt í þessu þá er ég einn af þeim sem hafa notið þeirrar náðar að fá að berja augum þessar skýrslur og lesa þær. En ég vek athygli á því þó að við utanríkismálanefndarmenn fáum þessar skýrslur afhentar sem trúnaðarmál þá hafa með einhverjum hætti, áður en við komumst yfir þær eða fengum þær í hendur, fréttamenn ýmsir, m.a. á fréttastofu Ríkisútvarpsins, fréttastofu sjónvarps, fréttastofu Bylgjunnar og Stöðvar 2, svo og Morgunblaðsins ef ég man rétt fengið skýrslurnar í hendur, vitnað í þær og dregið af þeim ályktanir sem reyndar voru of grófar að mínu mati þannig að þetta er eitthvað skrýtið með trúnaðarmálin.
    Mér finnst, herra forseti, að hér hafi farið fram fróðlegar umræður. Það er alveg ljóst að hér var flutt ræða sem er einkaflipp alþingismannsins og hæstv. ráðherra, Jóns Baldvins Hannibalssonar, ekki ræða um utanríkismál flutt af utanrrh. fyrir hönd ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Til að sanna mál mitt vitna ég til þess sem hv. þm. Sjálfstfl. hafa sagt í umræðunum. Ég nefni sérstaklega hv. 3. þm. Reykv. Jafnframt því hv. 5. þm. Norðurl. e. Hv. 3. þm. Reykv. benti á ósamræmi í ræðunni varðandi söguskoðunina um þróun Evrópsks efnahagssvæðis og benti á röng ártöl í því sambandi. Hann hafði rétt fyrir sér í því efni og réttara en hæstv. utanrrh. Ég hafði reyndar veitt þessu atriði athygli líka en þótti ekki taka því að gera það að umtalsefni því að ég er orðin svo vanur að hlusta á hæstv. utanrrh. fara með staðlausa stafi, því miður. Honum hefur orðið það á í þessum ræðustól þegar hann hefur verið að berjast fyrir hugðarefnum sínum að innlima Ísland í stórríki Evrópu að grípa til grófari ósanninda en þetta.
    Ég tel að í ræðum hv. 3. þm. Reykv. og 5. þm. Norðurl. e., Björns Bjarnasonar og Tómasar Inga Olrichs, hafi komið fram mjög harðsnúin og málefnaleg gagnrýni á málflutning hæstv. utanrrh. Hún lýsir því svo að ekki verður um villst að ekki er hægt að vera í vafa um að þessi ræða er ekki flutt fyrir hönd ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Ég verð að játa það að ég er sammála mörgu í þeirri gagnrýni sem hv. þm. Björn Bjarnason og hv. þm. Tómas Ingi Olrich settu fram. Ég fagna því sérstaklega að talsmenn og foringjar Sjálfstfl. skuli taka svo hraustlega undir málflutning og stefnu okkar framsóknarmanna í afstöðunni til inngöngu Íslands í Evrópubandalagið.
    Ég hef hins vegar áhyggjur af ýmsum minni spámönnum Sjálfstfl. Þá á ég ekki einasta við hv. 5. þm. Norðurl. e., Vilhjálm Egilsson, sem er mikill baráttumaður og hefur lengi verið fyrir inngöngu Íslands í Evrópubandalagið. Þeir eru farnir að taka undir með honum hæstv. fjmrh., hæstv. menntmrh. og nú seinast hv. þm. Árni R. Árnason og Sigríður Anna Þórðardóttir.
    Það er þetta með eðli Evrópusambandsins sem hér hefur verið lítillega gert að umtalsefni. Verslunarráð Íslands, líklega er það Alþjóðaverslunarráðið sem það kallaði sig í því tilfelli, hefur haldið uppi miklum áróðri fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. M.a. fékk það til áróðursfunda fyrrverandi utanríkisráðherra Dana, Uffe Ellemann-Jensen. Ég sat mjög fróðlegan fund á Hótel Sögu þar sem Uffe Ellemann-Jensen flutti ræðu og sat fyrir svörum. Hann sagði eitt sem mér fannst minnisvert á þessum fundi. Hann sagði að Danir hefðu aldrei skilið eðli Evrópusambandsins. Þeir hefðu haldið að það snerist um svínakjöt. En Uffe Ellemann-Jensen fullyrti það að Evrópusambandið snerist ekki um svínakjöt. Það snerist um friðinn í Evrópu, þ.e. yfirráðin í Evrópu. Með öðrum orðum, Pax Romanum hét þetta til forna og ég held að hann hafi haft rétt fyrir sér.
    Ég minntist hér í dag á þann hamslausa áróður sem rekinn hefur verið undanfarið í fjölmiðlum fyrir inngöngu Íslands í Evrópubandalagið og gerði að sérstöku umtalsefni þátt Ríkisútvarpsins í þessari áróðursherferð. Og ég vil ítreka það að mér finnst þversögn í því að reka tvo ágæta og tiltölulega meinlausa pistlahöfunda sem flytja pistla öðru hvoru á Rás 2 á sama tíma og Ríkisútvarpið hefur áróðursmeistara og frægan baráttumann, stórgáfaðan fréttamann, á launum úti í Brussel til þess að reka hamslausan áróður um hápólitískasta málefni sem verið hefur til umræðu á Íslandi á lýðveldistímanum, þ.e. áróður fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
    Skýrslur Háskóla Íslands hafa verið ræddar hér nokkuð að vonum. Málefni háskólans voru rædd utan dagskrár fyrir örfáum dögum og menn veltu fyrir sér þeirri spurningu hvort Háskóli Íslands væri að verða annars flokks háskóli. Ég held að Háskóli Íslands verði ekki annars flokks háskóli jafnvel þó að hann sé skertur að fjármunum, fjárveitingar til hans skornar miskunnarlaust niður, meðan nemendur þar leggja kapp á nám sitt og ná góðum námsárangri þrátt fyrir niðurskurðinn. En ég held að skýrslur eins og fáeinir starfsmenn Háskóla Íslands hafa skrifað fyrir peninga og eru úr garði gerðar eins og þær skýrslur sem við utanríkismálanefndarmenn höfum fengið í hendur sem trúnaðarmál séu til þess fallnar þegar þær verða á almannavitorði að gera Háskóla Íslands að annars flokks háskóla og ég hef miklu meiri áhyggjur af því. Þessum herrum sem skrifuðu þessar skýrslur og fengu stimpil háskólans á þær hefði verið miklu nær að fá þessi hugverk sín útgefin af Verslunarráði Íslands t.d. Ég er viss um að hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, hefði fúslega stimplað þær og gefið þær út í nafni Verslunarráðsins.
    Menn hafa gert hér að umtalsefni ágreining milli okkar hv. 1. þm. Austurl., Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsfl. Það er ekkert leyndarmál að við vorum ósammála um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og við höfum reyndar margoft orðið ósammála þau 20 ár sem við höfum starfað saman í þingflokki framsóknarmanna. En við erum sammála, og það vil ég ítreka sérstaklega, eins og hv. 1. þm. Austurl. gerði reyndar fyrr í dag, að við erum sammála um að Ísland eigi ekki að sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Við getum ekki þó við viljum héðan af við núverandi aðstæður sagt upp samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Það er vegna þess að þjóðfélagið hefur á þessum mánuðum sem samningurinn hefur verið í gildi aðlagað sig að aðstæðunum hvað sem fullveldi og stjórnarskrá líður. Ég er reyndar tilbúinn að rökstyðja þá skoðun mína að samningurinn samrýmist ekki íslensku stjórnarskránni og vitna einungis til 2. gr. og 61. gr. stjórnarskrárinnar. Ég er ekki einn um þá skoðun eða við sem lögðumst gegn þessum samningi. Ég vitna til prófessors Björns Þ. Guðmundssonar, til dr. Guðmundar Alfreðssonar og margra fleiri löglærðra manna og lögspekinga sem hafa tjáð sig á svipaðan hátt. En fjórmenningar utanrrh., þ.e. fjórir júristar sem hæstv. utanrrh. fékk til þess að komast að annarri niðurstöðu, komust að annarri niðurstöðu. Þeir töldu að hér væri um vel afmarkað fullveldisafsal að ræða, vel afmarkað minnir mig að þeir segðu.
    Ég var mjög undrandi þegar ég sá álitsgerð fjórmenninganna því að ég hafði borið mikla virðingu fyrir þeirra lögspeki fram að þeim tíma og geri að vissu leyti enn og þykir vænt um þessa menn og ber virðingu fyrir þeim þó að þeim yrði þetta á. Mest varð ég undrandi á fyrrverandi forseta Hæstaréttar, Þór Vilhjálmssyni. Við getum að vísu ekki átt orðastað við hann hér og nú því að hann fékk afskaplega fínt starf úti í Genf eftir að hann hafði lokið þessari álitsgerð. Meiri hluti Alþingis tók afstöðu til þess að hér væri ekki um stjórnarskrárbrot að ræða og reiddi sig vafalaust á þessa fjórmenninga. Við í stjórnarandstöðunni fluttum frv. til breytingar á stjórnskipunarlögum á því þingi þar sem við lögðum til að 21. gr. stjórnarskrárinnar yrði breytt. Flm. voru Steingrímur Hermannsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Kristín Einarsdóttir, Páll Pétursson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Ragnar Arnalds. Þessi tillaga náði ekki fram að ganga. Menn vildu hafa stjórnarskrána eins og hún er en líta fram hjá því sem stangaðist á við hana.
    Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.