Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 16:53:26 (873)

[16:53]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil frábiðja mér að vera talinn einhver stuðningsmaður stefnu Framsfl. í Evrópumálum. Í fyrsta lagi átta ég mig ekki á því hver sú stefna er þannig að ég get ekki stutt eitthvað sem ég veit ekki hvað er, og ég geri það alls ekki og hef ekki gert. Eins og ég segi veit ég ekki hvaða stefnu sá flokkur hefur.
    Einnig finnst mér mjög óviðeigandi þegar hv. síðasti ræðumaður ræðst hvað eftir annað á fréttamenn fyrir það hvernig þeir vinna sín störf. Ég veit ekki hvernig hv. ræðumaður getur haldið því fram að Ingimar Ingimarsson fréttamaður stundi hömlulausan áróður í sínum störfum fyrir Ríkisútvarpið. Mér finnst að svona árásir á fréttamenn séu þess eðlis að tilefni sé til þess að taka það til sérstakrar athugunar og það dugi ekki að flytja einhverjar tölur um að það hafi í einu mánuði verið fluttar 103 fréttir og þar af hafi 100 verið hreinn áróður o.s.frv. Og málflutningur af þessu tagi sé þess eðlis að það þurfi að athuga það betur en undir þessum umræðum um skýrslu utanrrh. Ég áskil mér þess vegna rétt til þess að gera það.