Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 16:55:54 (875)

[16:55]
     Björn Bjarnason (andsvar) :

    Herra forseti. Hv. þm. sagði áður í ræðu sinni að um hömlulausan áróður væri að ræða í störfum þessa fréttamanns. Mér finnast þessar ásakanir þess eðlis að það þurfi að skoða þær betur og hann þurfi að færa betri rök fyrir sínu máli.
    Varðandi stefnu Framsfl. þá hafa menn í dag heyrt hv. þm. og hv. 1. þm. Austurl. flytja ræður sínar og þar kemur fram að um ágreining er að ræða. Þeir viðurkenna það. Það kom greinilega fram í ræðu hv. 1. þm. Austurl. að hans áherslur eru allt aðrar en hv. 1. þm. Norðurl. v. Um það mál standa þau orð að það er ógjörningur að átta sig á stefnu Framsfl. í þessum málum.
    Varðandi aftur á móti stefnu míns flokks þá er það alveg skýrt og hefur verið skýrt að Sjálfstfl. útilokar ekki aðild Íslands að Evrópusambandinu en hins vegar liggja mál ekki fyrir þannig nú að það sé nokkurt efni sem við þurfum að taka ákvarðanir um.