Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 16:57:59 (877)

[16:57]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er satt að segja dapurlegt til þess að vita að tveir hv. þm. á Alþingi Íslendinga skuli gera það að meginatriði síns máls að kalla annars vegar forsvarsmenn og kennara við Háskóla Íslands fúskara en hinn kallar fréttamenn við Ríkisútvarp, sjónvarp launaða áróðursmenn. Af því að hann vék að skýrslum háskólans, sem ríkisstjórnin bað um, og taldi sig vera einn í hópi hinna fáu útvöldu sem töldu sig hafa fengið að njóta vegna þess að þær væru á trúnaðarstigi er rétt að taka skýrt fram: Það er venja þegar ríkisstjórn er verkbeiðandi að slíkum skýrslum að þær eru ræddar við ríkisstjórnarborð. Þær eru jafnframt sendar utanrmn., þær eru á því málasviði, og það er eðlilegt að þær fáist fyrst ræddar þar. Þegar hins vegar er farið að halda því fram að þetta sé tómt fúsk (Gripið fram í.) tel ég sjálfsagt mál og reyndar nauðsynlegt til að verja æru höfunda þessara skýrslna að létta þeim trúnaði af eins fljótt og verða má.