Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 17:00:58 (880)

[17:00]
     Páll Pétursson (andsvar) :

    Herra forseti. Ég ásamt fimm þingmönnum öðrum reyndi á 116. löggjafarþingi að fá stjórnarskránni breytt þannig að af væru tekin öll tvímæli um að samningurinn passaði innan ramma stjórnarskrárinnar. Þetta er á þskj. 30 á því þingi og menn geta fundið það í skjalavörslunni.
    Alþingi hafnaði því að fallast á málflutning okkar og keyrði málið áfram undir sínum formerkjum. Þjóðfélagið hefur búið við þennan samning. Efnahagslegar forsendur eru orðnar aðrar núna en áður en við gengum inn í Evrópskt efnahagssvæði. Það er greinilega ekki meiri hluti á Alþingi fyrir að segja þessum samningi upp og ég er ekki að berja hausnum við steininn.