Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 17:15:03 (884)

[17:15]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Mjög fróðlegt var að fá það staðfest sem ég lýsti sem skoðun minni á utanríkismálaræðu hæstv utanrrh. að um einkaskoðanir hans væri að ræða en ekki niðurstöðu ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Það hefur verið staðfest svo að ekki verður um villst og það ber að þakka. Hins vegar langar mig

aðeins að spyrja hv. 3. þm. Reykv. hvort ekki sé rétt skilið hjá mér að þótt hann hafi nefnt aldamótin sem hugsanlega tímasetningu að fara að velta fyrir sér hvort Íslendingar eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu, hvort afstaðan til fiskveiðimálanna muni eitthvað breytast í huga hans eða hvort þess sé ekki að vænta að það séu sömu skilyrði sem þar verða sett til grundvallar. Ég bendi á að það er ekki fyrr en árið 2002 sem einhverra breytinga á fiskveiðistefnu Evrópusambandsins er að vænta ef af verður.
    Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni í dag er ýmislegt sem ég hefði gjarnan viljað nefna en hafði ekki tíma til þrátt fyrir að hafa ríflegri tíma en ýmsir aðrir sem hafa flutt mál sitt. Sem betur fer hafa aðrar kvennalistakonur komið að flestum þeim málum fyrir utan eitt. Mig langar því að beina spurningu til hæstv. ráðherra varðandi afstöðu Íslendinga til þess viðskiptasamnings sem gerður var við Tyrkland þar sem nú, ef eitthvað er, er brýnni ástæður til þess að velta fyrir sér samskiptum við Tyrkland en var þegar samningurinn var gerður og var mjög gagnrýndur þá af hálfu okkar kvennalistakvenna. Það hefur gerst núna á árinu að þingmenn hafa verið sviptir þinghelgi og það berast sífellt fleiri fréttir af meðferð Tyrkja á Kúrdum þar sem þeim er bannað að tala sitt eigin mál. Kennsla er ekki leyfð á kúrdísku í Kúrdahéruðum Tyrklands. Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að ræða þetta frekar. Ég tel að fleiri tilefni muni gefast til þess en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þessara staðreynda hvort ekki komi til greina að taka þessa umræðu aftur upp og endurmeta viðhorf Íslendinga til viðskiptasamskipta við Tyrkland.