Staða garðyrkju- og kartöflubænda

21. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 15:41:57 (905)


[15:41]
     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Staða ýmissa garðyrkjubænda er erfið sem og ýmissa annarra bænda í öðrum búgreinum. Þessir erfiðleikar hafa verið ræddir í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins en þar eigum við hv. málshefjandi, Guðni Ágústson, báðir sæti. Ég tel að þær umræður og viðræður okkar við landbrn. séu ekki komnar á það stig enn, þó það verði e.t.v. alveg á næstu dögum, að tímabært sé að skýra frá tilteknum niðurstöðum. Meðal þess sem þar kemur til álita eru vissulega sjóðagjöld. Menn verða þó að gera sér grein fyrir því að ef sjóðagjöld eru lækkuð að svo miklu leyti sem þau renna til Stofnlánadeildar landbúnaðarins þá þýðir það hækkun vaxta.
    Ég vil enn fremur geta þess, sem fram kom hjá hv. 4. þm. Suðurl., að síðan ég kom í forustu í stjórn stofnlánadeildar minnist ég þess ekki að þar hafi verið tekið nein ákvörðun um það að skerða lánshæfni framkvæmda í garðyrkju. Ég mun hins vegar taka það til athugunar og skoða það í þeirri ágætu stjórn.
    Ég held að eðlilegt sé að við hv. fyrirspyrjandi fjöllum um þetta á þeim vettvangi nánar en við höfum gert og ég treysti því að við verðum þar ágætlega sammála.
    Hér hefur verið greint frá því sem gert hefur verið í sambandi við raforkuverð. Raforkuverð hefur farið lækkandi að raungildi í heilan áratug. En um leið og það er lækkað til tiltekinna atvinnugreina þá verða einhverjir aðrir að taka á sig þá skerðingu sem er í tekjum fyrir orkusölufyrirtækin því ekki dugar það að keyra þau í þrot. (Forseti hringir.) Það sem gefið er eftir í fjármagni þarf því að koma einhvers staðar annars staðar frá. Í því liggur m.a. sá vandi sem við er að fást.