Staða garðyrkju- og kartöflubænda

21. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 15:48:46 (908)


[15:48]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það er leiðinlegt, en samt nauðsynlegt, að þurfa að leiðrétta augljósar rangfærslur sem fram hafa komið í þessari umræðu og fyrst þetta: Það er fullyrt að EES-samningurinn fjalli um landbúnaðarmál og eigi eitthvað skylt við vanda kartöflubænda. Það er alger misskilningur. EES-samningurinn fjallar ekki um landbúnaðarmál. ( GÁ: Hver fullyrti það?)
    Að því er varðar tvíhliða samning sem gerður var af hálfu Íslands við Evrópusambandið um innflutning á ávöxtum, blómum og grænmeti er tvennt að segja: Meginþorri þeirra afurða er alls ekki framleiddur hér á landi. Undantekningin snertir fjórar tegundir grænmetis yfir hávetur og fimm tegundir afskorinna blóma. Þetta fyrirkomulag var gert í fullu samráði við hagsmunaaðila. Það er auðvitað algjör fjarstæða að nokkur maður hér á Alþingi Íslendinga eigi sér þann draum að íslenskur landbúnaður standi andspænis innfluttum landbúnaðarafurðum á niðurgreiddu verði tollfrjáls. Þvert á móti hefur verið lögð á það megináhersla að hafa heimildir í íslenskri löggjöf til verðjöfnunargjalda. Það er alger misskilningur að hagsmunum íslensks landbúnaðar hafi verið fórnað í EES-samningnum, hvað þá heldur að honum hafi verið fórnað fyrir fisk. Það er algjör heilaspuni að í EES-samningnum hafi verið ætlunin að heimila frjálsan innflutning á fjórðungi allra mjólkurafurða, eins og hv. þm. Eggert Haukdal hefur verið að blaðra um. Hér mun hann sennilega eiga við samninginn sem gerður var, tvíhliða samninginn við ESB frá 1972 að frumkvæði Matthíasar Bjarnasonar, en sem var hins vegar varinn að fullu með verðjöfnunargjöldum.
    Hv. þingmenn, bæði Guðni Ágústsson og fleiri, hafa verið að halda því fram að Norðmenn og Svíar hafi haldið betur á málum gagnvart landbúnaði í EES-samningunum, sem alls ekki fjalla um landbúnað. Þeir ættu að kynna sér málið. Báðar þessar þjóðir gengu miklu lengra í tvíhliða samningum í fríverslunarátt með landbúnaðarafurðir. Norðmenn t.d. sömdu um innflutning á 2.360 tonnum af ostum á algjörum lágmarkstollum. Þeir afléttu öllum magntakmörkunum og öllum tollum á 26 tegundum blóma og sömdu um tollkvóta upp á 20 millj. norskra króna fyrir þrjá aðra flokka blóma. Svíar sömdu um tollfrjálsan innflutning á 4.000 tonnum af fersku nautakjöti og þannig mætti lengi telja. Og bæði þessi ríki samþykktu að taka yfir heilbrigðislöggjöf Evrópusambandsins varðandi dýr og geta því ekki haldið uppi innflutningsbanni á heilbrigðisforsendum. Þetta ætti að svara hv. þm.