Staða garðyrkju- og kartöflubænda

21. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 15:57:35 (911)


[15:57]
     Guðni Ágústsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég get ekki setið á mér að gera smáathugasemd við þessa umræðu. Ég ræddi það við hæstv. forseta áður en þessi umræða fór fram að það væri ljóst að hér væri um stórmál að ræða sem bæði málshefjandi og ekki síður landbrh. þyrftu mikinn tíma til þess að koma upplýsingum á framfæri. Ég fór fram á klukkustund í þessa umræðu við hæstv. forseta. Því var hafnað. En nú þegar þessari umræðu lýkur þá hefur hún staðið í um klukkustund eða fast að klukkustund, alla vega í einar 45--50 mínútur. Þannig að ég harma það að hæstv. forseti og stjórn þingsins skuli ekki gera sér grein fyrir því að þegar svona stór mál eru til umræðu þá er mikilvægt að lengja tímann. Þó að þetta sé eitt málefni þá eru þetta tveir stórir flokkar, gróðurhúsin og kartöfluræktin, sem áttu í hlut og það er enginn vafi að það hefði verið heppilegra að verða við þeirri beiðni sem ég lagði fram um að hér færi fram klukkutíma umræða. Alla vega finnst mér svona eftir á að það hefði ekki síst verið ráðherrann sem hefði þurft lengri tíma.
    Ég vil svo bara að lokum vona það að þessi umræða verði til þess að að þessum málum verði unnið. Ráðherra er til að taka ákvarðanir og á að gera það, ekki til þess að lesa upp embættismannaskýrslur. Þess vegna óska ég hæstv. landbrh. velfarnaðar í því á næstu dögum að taka ákvarðanir sem gefa þessum greinum framtíðarvon.