Hvalveiðar

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:04:21 (914)


[16:04]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Vestf. þá skipaði ég sérstaka nefnd á grundvelli samþykktar ríkisstjórnarinnar með fulltrúum allra flokka hér á Alþingi til að gera tillögur um stefnu Íslendinga í hvalveiðimálum og hvort hvalveiðar skyldu hafnar að nýju og þá með hvaða hætti.
    Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda komst nefndin að þeirri niðurstöðu í skýrslu sem hún skilaði 2. maí sl. að rétt væri að hefja á ný hvalveiðar í atvinnuskyni. Tillaga nefndarinnar er sú að í fyrstu verði þær takmarkaðar við veiðar á hrefnu. Jafnframt er lagt til að afurðirnar verði einvörðungu til sölu á innlendum markaði, a.m.k. til að byrja með.
    Í samræmi við niðurstöður þessarar skýrslu hef ég lagt drög að þáltill. fyrir ríkisstjórnina sem felur í sér að hrefnuveiðar verði hafnar að nýju með þeim hætti sem nefndin leggur hér til og að eðlilegar viðræður verði hafnar við aðrar þjóðir til þess að kynna þann málstað og leita sem víðtækastra sátta um ákvarðanir okkar í þessum efnum.
    Þessi drög að þáltill. eru til umfjöllunar í ríkisstjórninni og ég vænti þess að hún muni taka ákvarðanir þar um mjög skjótt.