Hvalveiðar

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:10:41 (918)


[16:10]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Framganga Íslendinga í þessu máli er raunasaga sem óþarft er að endursegja hér. Það er ljóst að hefðu Íslendingar hegðað sér eins og þeim bar samkvæmt hafréttarsáttmála og öðrum alþjóðlegum samþykktum væru þeir löngu farnir að veiða hrefnu, það er alveg ljóst. Hins vegar hefur nú borið svo við að núv. ríkisstjórn hefur tekið á þessum málum af mun meiri skynsemi en áður var gert, ekki síst hæstv. sjútvrh. og hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason. Það kemur mér þess vegna mjög á óvart að hæstv. ráðherra tilkynnir nú að menn ætli að hefja hvalveiðar án þess að þess væri getið að það ætti að vera í samvinnu við viðurkennda alþjóðastofnun eins og hafréttarsáttmálinn segir til um. Ég hélt að sá tími væri liðinn þegar óvandaðir menn voru látnir hafa milljónir króna til að styðja þennan vonda málstað og nú væru menn að taka á þessu máli af skynsemi.
    Ég vil því spyrja hæstv. sjútvrh.: Ætlar hann ekki að standa við þau orð, bæði sín eigin og hæstv. utanrrh., að Íslendingar gangi aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið, sem við hefðum auðvitað aldrei átt að ganga úr, áður en hvalveiðar verði hafnar? Því að sé svo held ég að Íslendingar séu að koma sér inn í nýja erfiðleika og óþarfa.