Framkvæmd jafnréttisáætlunar

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:19:01 (923)

[16:19]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Frá því að ég skilaði þessari fsp. inn til Alþingis, sem er mjög stutt síðan raunar, hefur rannsóknarlögreglukona við Rannsóknarlögreglu ríkisins verið færð til í starfi og verið gert að rýma skrifstofu sína. Svo vill til að þessi kona hefur ásamt fleiri gert athugasemd við að starfskröftum mjög hæfrar konu var nýlega hafnað við stöðuveitingu hjá rannsóknarlögreglunni en karl ráðinn í staðinn sem mér er ekki kunnugt um að hafi meira til brunns að bera.
    Ég sé ekki betur en að þetta sé í andstöðu við það markmið jafnréttisáætlunar þeirrar til fjögurra ára sem samþykkt var fyrir hálfu öðru ári og á að vera unnið eftir nú. Getur það verið að þessi áætlun sé marklaust plagg sem enginn telur sig bundinn af?

    Ég tek það fram að texti áætlunarinnar var unninn á þann hátt að ráðherrar höfðu öll tækifæri til að skoða og aðlaga textann að því sem þeir töldu raunhæft áður en skjalið var fært í endanlegan búning. Mér finnst það líka áhyggjuefni ef sú kona sem hefur haft sig mest í frammi við að reyna að auka hlut kvenna við rannsóknarlögreglu ríkisins sætir því að vera færð til í starfi og býr nú við verri starfsaðstæður einmitt á þeim tíma sem hún gerir athugasemd við stöðu kvenna innan RLR. Og hvað skyldi sú kona hafa til brunns að bera sem rannsóknarlögreglan taldi sig ekki þurfa á að halda? Jú, það er sérþekking á sviði meðferðar á kynferðisafbrotum gagnvart börnum. Hún hefur góðan vitnisburð úr Lögregluskólanum, eins árs hjúkrunarfræðinám og hefur farið í fleira en eina kynnisferð til Bandaríkjanna þar sem hún hefur sérstaklega kynnt sér brot gegn börnum. Þarf rannsóknarlögreglan virkilega ekki á því að halda að nýta sér krafta þessarar konu?
    Nú er umræðan um meðferð kynferðisafbrotamála, ekki síst afbrot gagnvart börnum, mjög hávær og því miður er það að gefnu tilefni. Samfélagið virðist vanbúið til þess að taka á þessum málum af ábyrgð. Dómar eru furðulega vægir og allt að 80--90% mála er vísað frá í meðförum RLR eða ríkissaksóknara eða enda með sýknu eða skilorði.
    Á meðan flestir virðast sammála um að bæta þurfi meðferð þessara mála skýtur skökku við að nýta ekki starfskrafta konu sem hefur sérhæft sig í þessum málum og vannýta krafta annarrar mjög reynsluríkrar. En fyrirspurn mín til hæstv. dómsmrh. lýtur að því sem kemur hans ráðuneyti einna beinast við í þessu sambandi. þ.e. framkvæmd jafnréttisáætlunar. Áður en ég ber fsp. fram vil ég taka það fram að af 100 rannsóknarlögreglumönnum sem eru starfandi á Íslandi munu aðeins tveir vera konur. Með leyfi hæstv. forseta vil ég bera fram þessa fsp.:
    ,,Á hvern hátt hefur dómsmálaráðuneytið framfylgt þeim markmiðum í ,,framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna`` sem samþykkt var á Alþingi í maí 1993, að ,,markvisst verði unnið að því að ráða fleiri konur í störf rannsóknarlögreglumanna hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins````?