Framkvæmd jafnréttisáætlunar

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:28:19 (927)


[16:28]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Vegna þeirrar hugmyndar sem hv. 3. þm. Reykn. varpaði hér fram þá er hún um margt athygliverð. Samtök lögreglukvenna hafa núna nýlega beint erindi þar að lútandi til ráðuneytisins sem ég vænti að við getum skoðað nánar. Það getur kallað á skipulagsbreytingar og hugsanlega auknar fjárveitingar en það er atriði sem ég tel mjög eðlilegt að skoða.
    Varðandi síðari spurningu hv. fyrirspyrjanda um það hvort ég sé tilbúinn til þess í ræðustóli á Alþingi að meta ákveðna umsækjendur um starf hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins þá treysti ég mér ekki til þess að gera það. Þó ég hafi fengið upplýsingar í þeim efnum þá vil ég aðeins minna á að það er auðvitað á ábyrgð viðkomandi yfirmanns að ráða menn til starfa og í þessu tilviki tímabundið. Ég tel að það sé ekki tilefni til þess hér að fara í mat á þeim aðilum sem þar komu til álita og tel að hv. þm. þyrfti líka að afla sér frekari gagna um aðra þá sem þarna komu til álita áður en dómar eru kveðnir upp í því efni.