Útflutningur á vikri

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:46:49 (933)

[16:46]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef lagt hér fram fsp. til iðnrh. um útflutning á vikri. Málið er það að landsmenn hafa orðið varir við að það hefur komið nokkur fjörkippur í útflutning á þessu ágæta jarðefni og sýnist þá mönnum sitt hvað um hvernig á er haldið, einkum þegar litið er til þess að mikill útflutningur fer um Þorlákshöfn og enn fremur um höfnina í Ólafsvík. Það er kannski rétt að geta þess að það er með tvennum hætti sem útflutningur á vikri fer fram, annars vegar í Þorlákshöfn þar sem hann er þveginn og flokkaður en hins vegar á Snæfellsnesinu eða í Ólafsvík er ekki um það að ræða.
    Í annan stað er svo líka fyrirtæki í Reykjavík sem hefur um nokkurn tíma unnið að því að þurrka vikur sem yrði síðan notaður annaðhvort í blómarækt eða sem húsdýrasandur. Það fyrirtæki hefur átt í vök að verjast og fsp. mín er fyrst og fremst vegna þess að mér finnst það í hæsta máta óeðlilegt að útflutningi þessum skuli ekki vera meiri gaumur gefinn af stjórnvöldum. Einkum með það í huga að við leggjum okkur meira fram um að vinna enn frekar úr þessu efni og með þá fyrst og fremst atvinnumálin í huga.
    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
  ,,1. Hve mikið var flutt út af vikri í tonnum talið á árunum 1992--93 og það sem af er þessu ári?
    2. Var um einhvern útflutning að ræða á unnum vikri á fyrrnefndu tímabili, t.d. þurrkuðum, flokkuðum, til byggingariðnaðar eða til annarra nota?
    3. Hvernig eru markaðshorfur varðandi þennan útflutning?
    4. Hefur verið unnið að markaðssetningu erlendis á vikri í öðru formi en sem hráefni?
    5. Til hvaða landa er vikur fluttur út?``