Útflutningur á vikri

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:49:23 (934)


[16:49]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrirspurnir hans. Ég skal reyna að svara þeim í sem skemmstu máli.
    Árið 1992 voru flutt út tæplega 35.600 tonn af vikri og voru 94% þess útflutnings byggingarvikur. Um 2.100 tonn af vikri voru flutt út til annarra nota, t.d. sem gróðurhúsavikur og kattasandur. Ári síðar, 1993, voru flutt út um 38.600 tonn af vikri og 95% þess útflutnings eða 34.600 tonn voru byggingarvikur. Tæplega 2.000 tonn af vikri voru flutt út til annarra nota.
    Á þessu ári hefur hins vegar útflutningur á vikri margfaldast. Útflutningur fyrstu sjö mánuðina var orðinn meira en tvöfaldur ársútflutningur árin á undan eða rúmlega 85.000 tonn og er ljóst að útflutningurinn stefnir í að vera talsvert á annað hundrað þús. tonn á árinu. Verð á vikri er nú um 2.200 kr. tonnið sem er lækkun frá því í fyrra en þá fengust um 2.470 kr. á tonnið en árið 1992 var verðið um 2.100 kr. tonnið eða öllu lægra en er á þessu ári.
    Vinnsla á vikri í námu felst fyrst og fremst í uppmokstri og þar sem búast má við nokkrum breytileika í námunum vill vinnsluaðili gjarnan moka frá þeim kornastærðum sem síður henta honum til nota. Þetta leiðir til lakari heildarnýtingar á námunni en ella og er þetta verklag mjög umdeilanlegt. Einnig getur verið um lágmarksflokkun vikursins á útskipunarstað en önnur vinnsla byggingarvikurs er ekki umtalsverð. Um 5--6% vikursins hafa verið unnin frekar, þ.e. hann hefur verið þurrkaður og pakkaður til sérnota. Það er fyrst og fremst fyrirtækið Vikur hf. sem leggur áherslu á þessa vinnslu þó fleiri hafi reynt hana. Vikur hf. hefur á leigu fiskimjölsverksmiðju Kletts í Reykjavík þar sem eru þurrkofnar og búnaður til hörpunar, sigtunar og pökkunar á vikri. Fyrirtækið framleiðir kattasand og gróðurhúsavikur og hyggst einnig framleiða fínvikur sem duft til iðnaðar.
    Mikil hefð er fyrir notkun léttsteypu í byggingariðnaði í Evrópu og miklir markaðir eru þar fyrir margs konar byggingarvörur og húshluta úr frauðsteini. Talið er að námur í Evrópu gangi senn til þurrðar og hlýtur það óhjákvæmilega að leiða til þess að eftirspurnin aukist og verð hækki. Raunar hefur þessi þróun þegar hafist því eftirspurn eftir vikri hefur vaxið og hefur útflutningur frá Íslandi stóraukist eins og áður segir. Að líkum stefnir árlegur útflutningur í byggingarvikri í að verða um 300 þús. rúmmetrar á komandi árum. Samhliða aukinni eftirspurn í Evrópu mun verðið hækka.
    Á undanförnum árum hefur fullvinnsla vikurafurða verið skoðuð nokkuð bæði af innlendum aðilum og erlendum. Í því sambandi er nærtækt að minna á áhuga bresks fyrirtækis sem nú heitir Melwille sem í samvinnu við innlenda aðila skoðaði hagkvæmni þess að reisa þilplötuverksmiðju hér á landi. Hugmyndir þessar hafa verið lagðar til hliðar í bili, m.a. vegna þess samdráttar sem varð í byggingariðnaði í Evrópu á seinni hluta níunda áratugarins og staðið hefur til skamms tíma. Sérstaða þeirra platna sem ráðgert var að framleiða byggir á léttleika vikursins og sérstaklega miklu einangrunargildi hans.
    Rannsóknir á léttsteypu hafa talsvert verið stundaðar hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins en þær miða að því að nýta eiginleika vikurs til nýsköpunar í byggingariðnaði. Í nýgerðum þjónustusamningi sem ég hef gert við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins setur stofnunin sér það markmið að hafa fyrir 1. júlí 1996 þróað léttsteypu með rúmþyngd 1.300 kg á rúmmetra og styrk sem er 30 MPA eða meiri. Þróunarverkefni þetta er mikilvægur þáttur í að geta byggt upp fullvinnsluiðnað sem byggir á einstökum eiginleikum vikursins.
    Þá hefur notkun vikurs til ýmissa iðnaðarviðfangsefna einnig verið skoðuð. Þar virðast ýmsir möguleikar vera fyrir hendi, t.d. í sambandi við framleiðslu umhverfisvæns þvottaefnis.
    Það er því ljóst að í kjölfar frekari rannsókna og vöruþróunar má búa sig undir að unnt verði að byggja upp mjög álitlegan fullvinnsluiðnað hér á landi fyrir vikurafurðir, bæði til nota innan lands og til útflutnings.
    Útflutningur á vikri síðustu fimm ár hefur dreifst þannig: Bretland 37%, Noregur 25%, Danmörk 17%, Þýskaland 12%, Svíþjóð 4%, Holland 4% og annað 1%.
    Í fyrra dreifðist útflutningur vikurs þannig að Noregur var með 29%, en Þýskaland 21%, Holland 19%, Bretland 14%, Danmörk 10% og önnur lönd 7%.
    Nýting innlendra jarðefna hefur verið til umfjöllunar innan ráðuneytisins að undanförnu. Við áætlum að 30 millj. rúmmetra séu til á landinu af nýtanlegum vikri. Ef miðað er við að útflutningur verði að meðaltali 300 þús. rúmmetrar munu vikurnámur okkar Íslendinga ganga til þurrðar eftir 50--100 ár. Þetta ber að vega og meta í ljósi þess að vikurbirgðir landsmanna eru uppsöfnuð eign allt frá lokum ísaldar sem talið er að hafi lokið fyrir 10.000 árum.
    Í ljósi þess er nú í ráðuneytinu verið að vinna að mati á vikurnámum okkar þar sem hugað verður að útbreiðslueiginleikum, magni og hentugustu notum. Vinna þessi er forvinna að stefnumótun ráðuneytisins um nýtingu vikurs sem er hluti af stefnumótun um nýtingu innlendra jarðefna en það er ljóst að sú takmarkaða nýting vikurs sem nú á sér stað með námuvinnslu er ekki ásættanleg.