Útflutningur á vikri

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:57:33 (937)


[16:57]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. þessa ábendingu. Við skulum læra það af reynslu liðinna ára að forsendan fyrir því að ný atvinnustarfsemi takist er að rétt og vel sé til hennar stofnað, að sá undirbúningur sem fram þarf að fara áður en ný atvinnustarfsemi verður tekin upp sé vandaður, ekki síst rannsóknarstarfið og það þróunarstarf sem þarf að fara fram fyrst svo við byrjum nú á réttum enda á viðfangsefninu en ekki eins og okkur Íslendingum hættir oft til að ætla að verða ríkir á einni nóttu og þá helst með aðstoð fjárframlaga úr opinberum sjóðum. Þess vegna tek ég undir með hv. þm. að þær rannsóknir sem gera þarf og markaðskannanir þurfa að fara á undan athöfnum. Eins og ég sagði þá hef ég gert samning við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins um að ljúka rannsókn á léttsteypu þar sem vikur er eitt af hráefnunum fyrir 1. júlí 1996. Þá ættu að liggja fyrir niðurstöður úr þýðingarmestu rannsóknunum sem þurfa að fara fram áður en framleiðsla á léttsteypuefnum úr vikri getur hafist.
    Sjálfsagt er hægt að skoða ýmsar fleiri framkvæmdir sem til gagns gætu orðið en það er náttúrlega ekki gott að flytja út vikur með þeim aðferðum sem við erum með í dag þar sem nýtingin á efninu er ekki nema um 50% og öðrum hlutum þessa verðmæta efnis er mokað til hliðar. Það er starfsemi sem vissulega er orðinn grundvöllur fyrir í dag eins og útflutningstölur sýna en það er örugglega ekki hentugasta nýtingin á þessu efni.